Grænt Reykjavíkurkort 2011
Ný útgáfa af Grænu Reykjavíkurkorti var að líta dagsins ljós og byrjað var að dreifa kortinu nú í vikunni. Hægt verður að nálgast kortið hjá styrktaraðilum okkar og víðar um bæinn á næstu dögum. Einnig er hægt að panta kortið og fá sent heim gegn sendingarkostnaði. Þau fyrirtæki sem hafa áhuga á að gleðja viðskiptavini sína með Grænu Reykjavíkurkorti geta haft samband við Guðrúnu A. Tryggvadóttur í síma 863 5490 eða gunna@nature.is.
Grænt Reykjavíkurkort er samvinnuverkefni vefsins Náttúran.is, fjölþjóðlega verkefnisins Green Map® System, Reykjavíkurborgar og Háskóla Íslands. Tilgangur grænna korta víða um heim er að gera vistvæna kosti á sviði viðskipta, menningar og ferðaþjónustu sýnilegri og aðgengilegri. Græn kort hafa nú verið þróuð í yfir 700 sveitarfélögum, borgum og hverfum í 55 löndum. Ísland er fyrsta landið sem flokkar allt landið eftir Green Map kerfinu. Náttúran.is stendur alfarið að þróun kortsins, hönnun, útgáfu og viðhaldi gagnagrunna.
Prentútgáfa þessi er önnur í röðinni hér á landi en fyrsta útgáfan kom út í september 2010. Nýja kortið spannar 31 Green Map flokka og 10 aukaflokka og byggir á vefútgáfu Græna Íslandskortsins hér á Náttúran.is en hún tekur fyrir allt Ísland með yfir 3.000 skráningum í 100 flokkum.
Náttúran.is vill koma á framfæri þakklæti til þeirra aðila sem styrktu útgáfuna með fjárframlögum en án þeirra væri útgáfan ekki möguleg. Sjá styrktaraðila Græna Reykjavíkurkortsins 2011.
Birt:
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Grænt Reykjavíkurkort 2011“, Náttúran.is: 15. júlí 2011 URL: http://nature.is/d/2011/07/05/graent-reykjavikurkort-2011/ [Skoðað:21. nóvember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 5. júlí 2011
breytt: 16. júlí 2011