Hlaup er hafið í Múlakvísl. Búið er að loka þjóðvegi eitt við brúna yfir Múlakvísl, en vegurinn hefur rofnað þar,  rétt austan við Höfðabrekku. Samhæfingarstöðin í Skógarhlíð hefur verið virkjuð. Verið er að meta ástandið. Flogið verður yfir Mýrdalsjökul, Kötlu, Múlakvísl og Mýrdalssand nú á sjöunda tímanum. Verið er að efla viðbúnað fyrir austan og lögreglan í umdæminu er við brúna.

[Mögulega lítið eldgos í Kötlu - innskot Náttúran]

Af öryggisástæðum lýsir  ríkislögreglustjóri í samráði við lögreglustjóran á Hvolsvelli yfir hættustigi vegna hlaupsins í Múlakvísl. Brúin yfir Múlakvísl er farin, en hún var 128 metra löng byggð 1990. Fjallabaksleiðirnar voru opnaðar fyrir helgi og eru eingöngu færar jeppum og stærri bílum og er fólk hvatt til að fara frekar Fjallabaksleið nyrðri. Ástæða er til að vara fólk við mengun af völdum brennisteinsvetnis í grennd við ár frá Mýrdalsjökli. Brennisteinsvetni brennir slímhimnur í augum og lungum og lyktar eins og fúl egg. Þegar styrkur brennisteinsvetnis er kominn yfir hættumörk, hættir fólk að finna lyktina af því.

Birt:
9. júlí 2011
Tilvitnun:
Almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra „Hlaup er hafið í Múlakvís“, Náttúran.is: 9. júlí 2011 URL: http://nature.is/d/2011/07/09/hlaup-er-hafid-i-mulakvis/ [Skoðað:21. nóvember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: