Veislusalur Hótel Arkar var troðfullur á fundi sem Orkustofnun boðaði til í kvöld en málefni fundarins voru skjálftahrinur (sjá grein) sem skakið hafa umhverfi Hengilssvæðisins á undanförnum vikum. Fulltrúar Orkuveitunnar, Orkustofnunar, ÍSOR og Veðurstofunnar höfðu langt mál um hvernig jarðskjálftar verða til og hve eðlilegt sé að skjálftar eigi sér stað við niðurdælingu, spennan þyrfti hvort eð er að leysast úr læðingi, einhverntíma.

Ítrekað töluðu forsvarsmenn Orkuveitunnar og Orkustofnunar um að í starfsleyfi virkjunarinnar væri kveðið á um að niðurdæling ætti að eiga sér stað. Þetta þyrfti að gera til að viðhalda jarðhitageymunum fyrir næstu kynslóð. Niðurdæling hófst þó aðeins nú í september en virkjunin hefur nú verið starfrækt í fimm ár og var reyndar sett í gang áður en að starfsleyfi var veitt (sjá grein). Hvað gert hafi verið við affallsvatnið þessi fimm ár fengust engin svör við.

Bjarni Bjarnason forstjóri Orkuveitunnar afsakaði það að Orkuveitan hafi ekki kynnt bæjarbúum betur hvaða afleiðingar niðurdælingarnar gætu haft. Það alvarlega í málinu er þó að Orkuveitan vissi ekki að til jarðskjálfta myndi koma sem afleiðing af niðurdælingunni, sem skýtur skotum undir þá hugmynd manna að Orkuveitan viti alls ekki nógu vel hvað hún er að gera.

Jónas Ketilsson, verkefnisstjóri hjá Orkustofnun fullyrti „Samkvæmt helstu sérfræðingum á þessu sviði bendir allt til þess að niðurdælingin geti ekki orsakað stærri skjálfta en annars yrðu af náttúrulegum orsökum og það er auk þess vel hugsanlegt að með niðurdælingunni sé verið að losa spennu fyrr og þannig kallað fram skjálftana fyrr en ella og jafnvel þá að þeir yrðu minni fyrir vikið.“

Aldís Hafsteinsdóttir bæjarstjóri Hveragerðis lét sérfræðingateymið ekki gera lítið úr áhyggjum Hvergerðinga og setti fram skýrar og skorinorðar spurningar og krafðist þess að þessum „tilraunum með náttúruna yrði hætt þegar í stað“, þangað til að svör fengjust við því hvernig hægt yrði að koma í veg fyrir manngerða jarðskjálfta. Ófyrirséð væri með hvaða afleiðingar slíkt gæti haft.

Fjöldi manns kvað sér hljóðs á fundinum, þ.á.m. Ómar Ragnarsson og gagnrýndi Orkuveituna harðlega fyrir að vita of lítið um hvað hún sé að gera og stefni þannig öryggi íbúa Hveragerðis og nágrennis í stórhættu með óábyrgu háttalagi. Hann óskaði svara við því hvort að Orkuveitunni væri ljóst hvaða afleiðingar enn umfangsmeiri niðurdælingar gætu haft, en eins og kunnugt er er Orkuveitan ekki hætt framkvæmdum sínum á heiðinni.

Því miður er saga Orkuveitunnar þyrnum stráð. Fyrst er orkan seld, svo er farið í framkvæmdir og síðan á að leysa öll vandamálin eftir á, á sem ódýrastan hátt. Eins og Aldís benti á, þá skipti fundurinn í kvöld engu máli fyrir Orkuveitu Reykjavíkur. Hún mun halda áfram að dæla niður affallsvatni alveg burtséð frá því hvaða afleiðingar það hefur fyrir íbúana í nágrenninu eða umhverfið. Eða hvað?

Ljósmynd: Á fundinum í kvöld, Guðrún A. Tryggvadóttir.

Birt:
17. október 2011
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Spenna á skjálftafundi í Hveragerði“, Náttúran.is: 17. október 2011 URL: http://nature.is/d/2011/10/18/spenna-skjalftafundi-i-hveragerdi/ [Skoðað:21. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 18. október 2011

Skilaboð: