Viðarkurl og sag hefur verið flutt inn í miklum mæli sem undirburður fyrir hin ýmsu dýr s.s. kýr, hesta og hænsn jafnvel þó að nú sé nóg af viði úr nytjaskógum fyrir hendi í hina ýmsa framleiðslu. Ég furðaði mig á þessu er ég var nýverið að leita eftir viðarkurli fyrir landnámshænsnasetrið í Alviðru. Ég fór í Fóðurblönduna  á Selfossi og var þá tjáð þessi ósköp og boðið innflutt kurl til kaups. Það kom náttúrulega alls ekki til mála og ég ásetti mér að reyna að finna út úr því hvor enginn íslenskur aðili framleiði slíka vöru. Ástæðan var sögð að farið væri fram á að kurlið sé hitað vegna smithættu og það uppfylli enginn íslenskur framleiðandi í dag. Vegna sóttvarnareglna í hænsna-, hrossa- og kúabúum væru strangar reglur um að spónn og sag sé hitað upp í 80% gráður til að bakteríu- og gerilsneyða það.

Mér til mikillar ánægju var ég að fletta í Bændablaðinu nú áðan og á baksíðu blaðsins er þá frétt um að tveir bændur í Þingeyjarsveit, þeir Ólafur Ingólfsson sauðfjárbóndi í Hlíð og Gestur Helgason í Landmóti sem m.a. rekur verslun á Fosshóli, hafi stofnað félagið Fellsskóg ehf. sem gerir einmitt þetta, þ.e. að fræsa og hita spón og sag sem undirburð fyrir húsdýr.

Viðurinn sem þeir félagar nota til framleiðslunnar er úr íslenskum nytjaskógi í næsta nágrenni. Þeir félagara breyttu gömlum fræsara í sög og endurnýttu þannig gamalt tæki sem hætt var að nota. Tækjabúnaðurinn er knúinn rafmagni úr heimarafstöð og því ekkert innflutt eldsneyti nýtt til að knýja hann. Framleiðslan og hráefnið eru því ákaflega umhverfis- og gjaldeyrisvæn. Þetta er mjög ánægjulegt og óskar Náttúran þeim félögum í Fellsskógi ehf. til hamingju með frumkvæðið.

Sjá nánar í greininni í Bændablaðinu.

Ljósmynd: Í hænsnabúinu í Alviðru, Guðrún Tryggvadóttir.

Birt:
4. nóvember 2010
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Bakteríu- og gerilsneyddur undirburður fyrir húsdýr nú framleiddur hér á landi“, Náttúran.is: 4. nóvember 2010 URL: http://nature.is/d/2010/11/04/bakteriu-og-gerilsneytt-undirlag-fyrir-husdyr-nu-f/ [Skoðað:21. nóvember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 17. janúar 2011

Skilaboð: