Icelandic Group, áður Sölumiðstöð Hraðfrystihúsanna, sendi frá sér frétt fyrr í dag þar sem fram kemur að félagið vinni að fá  vottun MSC Marine Stewardship Council. Áður hafði íslenska fyrirtækið Sæmark sótt um MSC-vottun en Vottunarstofan Tún hefur nýverið aflað sér réttinda til að sjá um úttektir vegna MSC-vottunar.

Margir höfðu séð fyrir að það yrði ekki til farsældar að votta sjálfan sig* en LÍÚ og Fiskveiðifélagið hafa unnið að því að koma á legg eigin íslensku vottunarkerfi og fann MSC allt til foráttu. Trúverðugleiki slíks kerfis á alþjóðamörkuðum hlítur að vera afmörkuð og kostnaður við kynningu var að sjálfsögðu aldrei raunhæfur kostur. Íslenska merkinu verður þó flaggað sem upprunamerki eftir því sem næst verður komist.

*Sjá greinarnar; Ábyrgar fiskveiðar Íslendinga og Íslenskt merki, hvað sem tautar og raular.

Í frétt á vef Icelandic Group segir:

Icelandic Group hefur hafið vottunarferli í öllum þorsk- og ýsuveiðum við Ísland samkvæmt vottunarstaðli Marine Stewardship Council (MSC). MSC - staðallinn er sá víðtækasti og virtasti í heiminum  yfir sjálfbærar fiskveiðar sem byggja  á vísindalegri ráðgjöf. Markmiðið er að íslenskur sjávarútvegur fái þá viðurkenningu sem hann verðskuldar á sviði sjálfbærni og tryggja greiðan aðgang fyrir íslenskt sjávarfang að heimsmarkaði svo íslenskur sjávarútvegur njóti þar sömu tækifæra.

Ísland er ellefta sæti í heiminum yfir helstu útflutningsþjóðir á sjávarfangi  , en um 65% af ýsuafla landsins er fluttur út til Bretlands, meðan 16% af þorskafla landsins er fluttur út til Bretlands og 12% til Spánar. Umfang vottunar mun ná yfir heildarafla Íslendinga á þorsk og ýsu innan 200 mílna efnahagslögsögu og allar tegundir veiðarfæra. Vottunin er gerð af faggiltum þriðja aðila og hefur Den Norske Veritas (DNV) verið valið til verksins. Þegar búið verður að innleiða MSC-staðalinn mun heildarafli Íslendinga í þorsk og ýsu,  þ.e. 160.000 tonn af þorski og 50.000 tonn af ýsu,  fá vottun um að uppruni hans sé frá sjálfsbærum fiskstofni.

Ingvar Eyfjörð, aðstoðarforstjóri Icelandic Group, segir:  “Sem eitt af tíu stærstu sjávarútvegsfyrirtækjum heims, hefur Icelandic Group staðgóða þekkingu á mikilvægi þess að vörumerki sýni neytendum fram á sjálfbæra framleiðslu. MSC vottunarferlið er mikilvægt skref í frekari fjárfestingum Icelandic Group í íslenskum sjávarútvegi, en félagið kaupir og markaðssetur 35% af öllum afla sem veiðist við Íslandsstrendur á ári hverju. Það er því mikið ánægjuefni að félagið geti haft forystu um að innleiða slíkt vottunarferli fyrir hönd Íslendinga.”

Rupert Howes, forstjóri MSC segir: “Ákvörðun Icelandic Group um að innleiða vottunarferli  í öllum þorsk- og ýsuveiðum við Íslandsstrendur er sögulega mikilvæg  og mun setja mark sitt á flest sem viðkemur veiðum, vinnslu og sölu á bolfiski á Íslandi. Icelandic Group er leiðandi útflutningsfyrirtæki í Bandaríkjunum og Evrópu og brautryðjendastarf þeirra með MSC-vottun mun hafa mikil áhrif á helstu mörkuðum þess og hjá kaupendum. Ég er fullviss um að verslanir og veitingastaðir þar munu fylgjast af áhuga með vottunarferlinu og vænta árangurs af því. Íslendingar eiga langa sögu af þorsk- og ýsuveiðum sem þeir geta verið stoltir af og við vonumst til að eiga traust samstarf um þessa verkefni. ”

Með því að innleiða MSC staðalinn á Íslandi, er Icelandic Group að styrkja samkeppnishæfni á alþjóðavettvangi og laga sig að strangari kröfum á markaði – kröfum kaupenda  um að varan sé úr sjálfbært nýttum fiskstofni sem hefur hlotið MSC vottun af faggiltri vottunarstofu.  Að sama skapi geta kaupendur á íslensku sjávarfangi komið þessum skilaboðum áleiðis til neytenda, í verslunum eða veitingahúsum, sem í auknu mæli eru meðvitaðir um mikilvægi þess að fiskveiðar séu sjálfbærar og treysta á MSC vottunarmerkið. Icelandic Group er nú þegar aðili að íslenskum staðli um ábyrga fiskveiðistjórnun (e.Icelandic Responsible Fisheries (IRF) scheme) en staðlarnir tveir styðja við hvorn annan á alþjóðlegum mörkuðum með sjávarfang.

Ingvar Eyfjörð segir jafnframt: “MSC vottun mun að okkar mati festa í sessi öflugt og ábyrgt fiskveiðistjórnunarkerfi Íslendinga og styðja þannig ennfremur við árangursríka markaðssetningu á íslensku sjávarfangi á erlendum markaði nú sem fyrr.  Traust  gæðamerki MSC mun auðvelda viðskiptavinum okkar að velja besta kostinn í umhverfisvænu sjávarafangi – íslenskar sjávarafurðir.

“Ég vil einnig óska stjórnendateymi fyrirtækisins á sviði sjálfbærni til hamingju með vel unnin störf við að koma þessu mikilvæga verkefni á rekspöl fyrir hönd Icelandic Group. Teymið er skipað  sérfræðingum frá öllum heimshornum þar sem félagið er með rekstur og hefur það haft það hlutverk að marka stefnu um leiðandi hlutverk fyrirtækisins í samfélagslegri ábyrgð og umhverfisvernd  og auka þannig veg íslenskra sjávarafurða á alþjóðamarkaði.”

Um Marine Stewardship Council (MSC)
MSC er sjálfseignarstofnun sem rekin er án gróðasjónarmiða (non profit)  til að kynna sjálfbærar fiskveiðar með umhverfismerki sem vottar að sjálfbærar veiðar. MSC- merkt vara er þekkt og viðurkennd og aðgengileg víða á mörkuðum.  MSC-merkið tryggir að varan er úr fiskistofni sem nýttur er á sjálfbæran hátt og í kerfinu er rekjanleiki til fiskveiðasvæða.  Til að gera þetta mögulegt heldur MSC  utan um tvo staðla, þ.e.  MSC umhverfisstaðal fyrir ábyrgar og  sjálfbærar fiskveiðar; og  MSC birgja- og rekjanleikastaðal sem tryggir rekjanleika frá veiðiskipi alla leið á disk neytanda.Á þennan hátt getur MSC bætt vistkerfi  sjávar og stutt við  sjávarútveginn.

Birt:
Oct. 26, 2010
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Icelandic Group sækir um MSC-vottun“, Náttúran.is: Oct. 26, 2010 URL: http://nature.is/d/2010/10/26/icelandic-group-saekir-um-msc-vottun/ [Skoðað:May 29, 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: Oct. 28, 2010

Messages: