Landsskipulag
Aðalfundur Landverndar, haldinn 3. maí 2008 í Norræna húsinu í Reykjavík, lýsir yfir stuðningi við að skipulagslöggjöf verði bætt og að komið verði á landsskipulagi á Íslandi. Með landsskipulagi yrði skipulagsvaldið áfram á sveitarstjórnarstiginu en tekið yrði tillit til heildarhagsmuna þjóðarinnar í skipulagsmálum. Mikilvægt er að löggjafinn hafi þar ákveðið stefnumótunarhlutverk.
Aðalfundur Landverndar minnir á ályktun aðalfundar 2006 þar sem lagt var til að
miðhálendi Íslands verði gert að griðasvæði og verði hlíft við frekari framkvæmdum, s.s. uppbyggðum vegum, miðlunarlónum og öðru sem raskað getur þeim heildarhagsmunum sem þar eru í húfi.
Greinargerð:
Núverandi skipulagslög hafa ekki reynst sem skyldi enda umdeilt þegar skipulagsvaldiðvar fært einhliða til sveitarstjórna árið 1997 án landsskipulagsstefnu. Gagnrýnt var sérstaklega að víða á miðhálendinu gengu mörk sveitarfélaga þvert á land sem eðlilegra væri að skipuleggja sem heild. Einnig var agnrýnt að meginý orri landsmanna ætti litla sem enga aðkomu að skipulagi meirihluta landsins. Við þessari gagnrýnii var brugðist með stofnun “nefndar um skipulagsmál miðhálendisins”. Mikið vantar þó uppá að skipulagsmál miðhálendisins séu sem skyldi.
Skipulag einstakra sveitarfélaga hefur áhrif. Í dag hafa einstök sveitarfélög skipulagsvald í tengslum við framkvæmdir sem varðað geta alla landsmenn eða haft mikil áhrif á aðliggjandi sveitarfélög, svo sem olíuhreinsunarstöð. Annað dæmi er gufuaflsvirkjun á Ölkelduhálsi en þar fer sveitarfélagið Ölfus með skipulag en einna mest eru áhrifin á íbúa Hveragerðis.
Reykjanesbær og Garður gáfu einhliða út framkvæmdaleyfi vegna álvers í Helguvík þrátt fyrir að fullkomin óvissa væri um nauðsynlega orkuvinnslu og orkuflutninga sem heyra undir önnur sveitarfélög.
Sveitarfélög í Þingeyjarsýslu unnu sameiginlega að skipulagsmálum vegna fyrirhugaðra jarðhitavirkjana á nyrðra gosbeltinu og gátu með því móti sniðið af hluta þeirra vankanta sem eru á núverandi lögum. Í þá vinnu vantar þó að gera grein fyrir heildarumfangi verkefnisins svo sem tengingum við raforkukerfi og þess háttar.
Af ofangreindu má vera ljóst að sjálfsagt er að Íslendingar komi á landsskipulagi í landinu, enda fáheyrt að landsstjórn hafi ekki landsskipulagsstefnu. Úr þessu þarf að bæta.
Birt:
Tilvitnun:
Landvernd „Landsskipulag“, Náttúran.is: 11. maí 2008 URL: http://nature.is/d/2008/05/07/landsskipulag/ [Skoðað:21. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 7. maí 2008
breytt: 11. maí 2008