Beint frá býli hlaut Fjöreggið 2009
Samtökin Beint frá býli hlutu viðurkenninguna „Fjöreggið 2009“, verðlaun Matvæla- og næringarfræðafélags Íslands (MNÍ), fyrir lofsvert framtak á matvælasviði. Þetta er í 17. sinn sem verðlaunin eru veitt og þykir mikill heiður fyrir aðila í matvælaframleiðslu að fá þau. Verðlaunin eru afhent á árlegum matvæladegi MNÍ sem að þessu sinni bar yfirskriftina „Matvælaframleiðsla og gjaldeyrissköpun“.
Hlédís Sveinsdóttir, formaður Beint frá býli tók við verðlaununum en í umsögn dómnefndar segir: „Vinnsla og sala á matvælum beint frá býli til neytenda miðar að því að auka sóknarfæri til fjölbreyttari og vaxandi heimavinnslu þar sem öryggi og gæði framleiðslunnar eru höfð að leiðarljósi. Heimavinnsla tengist mjög ferðaþjónustu og kröfum neytenda um fjölbreyttara vöruúrval og nýja þjónustu.“
Beint frá býli opnuðu á dögunum nýjan vef þar sem félagar eru kynntir og flokkaðir eftir vöruframboði og landshlutum. Um félaga í Beint frá býli hefur einnig verið fjallað hér á vef Náttúrunnar frá upphafi bæði með skráningum á Grænum síðum og Grænu korti t.a.m. í flokknum „Heimavinnsla“ og í fréttum og greinum auk þess sem framleiðsluvörur frá nokkrum aðilum þ.e. Rabarbía og Sælusápum eru til sölu hér á Náttúrumarkaði, vefverslun Náttúrunnar.
Með því að slá inn leitarorðin „Rabarbía“ og/eða „Sælusápur“ í leitarreitinn hér efst á síðunni getur þú fundið vörurnar á Náttúrumarkaði.
Birt:
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Beint frá býli hlaut Fjöreggið 2009“, Náttúran.is: 18. október 2009 URL: http://nature.is/d/2009/10/18/beint-fra-byli-fa-fjoreggio-2009/ [Skoðað:21. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.