Sameinuðu arabísku furstadæmin hafa tekið forystuna í loftslagsmálum í Mið-Austurlöndum með byggingu fyrstu kolefnisjöfnuðu borgar heims. Vinna er nýlega hafin við Masdar-borg, úthverfi í Abu Dhabi, höfuðborg SAF, en þar verður aðeins notuð endurnýjanleg orka og allur úrgangur endurunninn.

Í borginni verður notast við háþróuðustu gerðir sólarraforku auk þess sem samgöngum verður sinnt með neðanjarðar-léttlest. Arkitektar segja að borgin muni nota 75% minna rafmagn og 50-60% minna vatn en venjuleg borg af sömu stærð.

Sameinuðu arabísku furstadæmin búa við eina mestu kolefnislosun í heimi miðað við höfðatölu, sökum eyðimerkurloftslags og mjög mikillar notkunar olíu og gass við orkuöflun. Masdar er einnig heitið á orkufyrirtæki stjórnvalda sem ætlað er að þróa nýjungar í orkuöflun.

Masdar-borg á að opna árið 2016 og þar er gert ráð fyrir 50 þúsund íbúum, en einnig á borgin að vera miðstöð rannsóknasamfélags á sviði endurnýjanlegra orkugjafa og sjálfbærrar þróunar. Verkefnið kostar 22 milljarða dollara og leggur ríkisstjórn SAF fjóra milljarða til.

Áhersla er lögð á að nota kolefnislosunarheimildir frá CDM-verkefnum samkvæmt sveigjanleikaákvæðum Kýótó-bókunarinnar til að kolefnisjafna borgina. Mynd: Viðskiptablaðið. Myndatexti: Áhugasamir virða fyrir sér módel af Masdar, kolefnisjöfnuðu borginni sem verður orðin íbúðarhæf árið 2016 ef áætlanir ganga eftir.
Birt:
18. febrúar 2008
Tilvitnun:
Viðar Þorsteinsson „Kolefnisjöfnuð borg í eyðimörkinni“, Náttúran.is: 18. febrúar 2008 URL: http://nature.is/d/2008/02/18/kolefnisjofnuo-borg-i-eyoimorkinni/ [Skoðað:21. nóvember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: