Um þessar mundir heldur prentsmiðjan hjá GuðjónÓ upp á að hafa borið Svansleyfi á rekstur prensmiðjunnar í 10 ár. Fyrst fékk GuðjónÓ Svansleyfi árið 2000, endurnýjun árið 2002 og aftur 2008 en þá fyrir prentsmiðjuna í heild, en reglum Svansins var breytt árið 2007, þannig að slíkt varð mögulegt. Skilyrði norræna umhverfismerkisins eru hert í samræmi við framýróun í umhverfismálum í prentiðnaðinum. Í skilyrðum Svansins eru gerðar kröfur sem ná til allra þátta prentunarinnar. Sjá viðmið Svansins um prentverk. Sjá viðmið Svansins fyrir pappír.

Forsvarsmenn fyrirtækisins hjá GuðjónÓ hafa um árabil verið í framvarðasveit umhverfisstarfs á Íslandi og með ráðum og dáðum reynt að stuðla að framgangi þess að umhverfisviðmið og vottanir fái vægi í íslensku viðskiptasamfélagi. Þeir hafa lagt fram óeigingjarna vinnu við að kynna og mæla fyrir því að fleiri prentsmiðjur taki sig til fyrirmyndar og vinni eftir viðmiðum Svansins sem reynst hefur fyrirtækinu gríðarlega vel, bæði sem markaðstæki og leið til hagræðingar og sparnaðar í rekstri. Nú hefur önnur prentsmiðja bæst í hóp Svansvottaðra prentsmiðja á Íslandi þ.e. prentsmiðjan Oddi og er það vel.

Hjá GuðjónÓ er einn hluthafa félagsins að baki vefjarins Náttúran.is og hefur frá byrjun trúað á mikilvægi þess að vefur af þessu tagi komist á laggirnar hér á landi. Hjá GuðjónÓ hlaut Umhverfisverðlaun Reykjavíkurborgar árið 2000. Sjá hér á grænum síðum og grænu Íslandskorti meira um fyrirtækin sem hafa hlotið Umhverfisverðlaun Reykjavíkurborgar og þau fyrirtæki sem hafa Svansvottun hér á landi á Grænum síðum.

Starfsmenn Náttúran.is óska öllum starfsmönnum hjá GuðjónÓ til hamingju með tíu ára Svansafmælið og þakka velvild og stuðning á liðnum árum.

Birt:
4. maí 2010
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Vistvæn prentsmiðja hjá GuðjónÓ - með Svaninn í 10 ár“, Náttúran.is: 4. maí 2010 URL: http://nature.is/d/2010/05/04/vistvaen-prentsmidja-hja-gudjono-med-svaninn-i-10-/ [Skoðað:21. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: