Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, setti í morgun samgönguráðstefnuna Driving Sustainability á Hilton Nordica.

Þetta er annað árið í röð sem ráðstefnan er haldin, en hún fjallar um vistvæna orkugjafa í samgöngum. Í ár er kastljósinu einkum beint að rafmagni.

Í ávarpi sínu vakti Ólafur Ragnar máls á nauðsyn þess að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis. Hann sagði að jafnvel olíuauðug ríki við Persaflóa á borð við Katar og Abu Dhabi hefðu gert sér grein fyrir þörfinni á að skjóta fleiri stoðum undir orkuöflun sína, og spurði hvernig á því stæði að lönd á Vesturlöndum gerðu ekki slíkt hið saman.

Sigurjón Þ. Árnason, bankastjóri Landsbankans, flutti einnig ávarp, þar sem hann gerði grein fyrir vægi jarðvarmanýtingar í baráttunni við að innleiða endurnýjanlega orkugjafa.

Bar Sigurjón jarðvarmann saman við aðra kosti, svo sem kjarnorku, sem hann sagði aðeins vera skammtímalausn sökum takmarkaðra úraníum- og plútóníumbirgða.

Birt:
18. september 2008
Tilvitnun:
Viðar Þorsteinsson „Jafnvel Abu Dhabi og Katar sjá þörfina“, Náttúran.is: 18. september 2008 URL: http://nature.is/d/2008/09/18/jafnvel-abu-dhabi-og-katar-sja-thorfina/ [Skoðað:22. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: