Áralöng barátta Péturs M. Jónassonar vatnalíffræðings gegn áformaðri lagningu Gjábakkavegar #365 yfir Lyngdalsheiði, frá Þingvallavatni til Laugarvatns, hefur fengið stuðning úr ýmsum áttum á síðustu dögum og vikum. Landvernd vann m.a. skýrslu og kort um möguleikana í stöðunni og kynnti nú á dögunum. Sjá frétt. Í kjölfarið hafa fjölmiðlar sýnt málinu meiri skilning og fjallað um málsmetandi atriði frá ýmsum hliðum. Barátta Péturs er byggð á rökum vísindamanns sem leitast af öllum mætti við að hafa vit fyrir misvitrum framkvæmdaaðilum og stjórnvöldum sem hafa síendurtekið skotið skollaeyrum við rökum þeim sem liggja niðurstöðu Péturs til grundvallar. Skýrsla Landverndar virðist hafa hjálpað til við að varpa ljósi á málið og koma málinu í það horf að hægt sé að ræða það málefnalega.

Í vikunni stefndi Pétur M. Jónasson síðan Vegagerðinni og krefst þess að úrskurður umhverfisráðherra frá því í fyrrahaust þess efnis að Vegagerðinni sé heimilt að leggja nýjan Gjábakkaveg um Lyngdalsheiði verði hnekkt. Í stefnunni er m.a. dregið í efa að skipulagsstjóri, Stefán Thors, hafi verið hæfur til að úrskurða um málefni Lyngdalsheiðarvegar vegna tengsla hans við umboðsmann Vegagerðarinnar, Stefán Gunnar Thors sem er sonur Stefáns Thors. Pétur Mikkel færir áfram rök fyrir því að aukin umferð geti stórskaðað lífríki Þingvallavatns m.a. vegna niturmengunar. Sjá stefnuna í heild sinni.

Pétur Mikkel Jónasson (f.1920) er professor emeritus dr. phil hjá Kaupmannahafnarháskóla og hefur hann starfað við rannsóknarstofu háskólans í vatnalíffræði (Ferskvatnsbiologisk Laboratorium Köbenhavns Universitet) síðan 1956. Pétur var um tíma forseti Alþjóðasamtaka vatnalíffræðinga og Hins íslenska fræðafélags í Kaupmannahöfn. Pétur hefur unnið að rannsóknum á lífríki Þinvallavatns um langt árabil og er höfundur og ritstjóri fræðibóka um Þingvallavatn og Mývatn. Pétur dvaldi sem ungur drengur um árabil hjá afa sínum og ömmu (Ása Þorkelsdóttir 1866-1950 og Guðmundur Jónsson Ottesen 1869-1956) að Miðfelli í Þingvallasveit og tileinkaði bókina um Þingvallavatn minningu þeirra.

Sjá fréttir og greinar sem birst hafa hér á síðum Náttúrunnar um málið í tímaröð:

Lífríki Þingvallavatns stefnt í voða með fyrirhuguðum Gjábakkavegi 21.08.2006.
Er fyrirhugaður Gjábakkavegur í takt við UNESCO heimsminjaskráð Þingvallasvæðið? 29.07.2006.
Gjábakkahraðbrautin - Pétur M. Jónasson fær stuðning frá Landvernd 14.03.2007.
Hugsanleg lausn á legu Gjábakkavegar. 08.10.2007.
Afstaða umhverfisráðherra óskiljanleg. 01.10.2007.
Kvikasilfur í fiski. 07.10.2007.
Beiðni Péturs til meðferðar. 27.08.2007.
Pétur M. Jónasson kærir úrskurð vegan Gjábakkavegar. 23.01.2008.

Myndin er af Pétri M. Jónasson. Ljósmynd:Guðrún Tryggvadóttir.

Birt:
30. mars 2008
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Pétur M. Jónasson - Baráttan um Þingvallavatn“, Náttúran.is: 30. mars 2008 URL: http://nature.is/d/2008/03/30/petur-m-jonasson-barattan-um-thingvallavatn/ [Skoðað:21. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 31. mars 2008

Skilaboð: