Sjálfbær þróun í sjálfbæru samfélagi
Nú er að hefjast háskólanám í umhverfisfræðum á Sólheimum eftir um árs þróunarvinnu Sesseljuhúss umhverfisseturs á Sólheimum og bandarísku menntasamtakanna CELL. Það var Dave Oakes, forsvarsmaður CELL, sem átti frumkvæðið að þessu samstarfi en CELL stendur fyrir “Center for Ecological Learning and Living”. Þessi menntasamtök bjóða bandarískum háskólanemum upp á svokallað “study abroad” nám en þá gefst nemendum tækifæri á að fara út í heim að læra og fá það metið til eininga sem nýtast í áframhaldandi háskólanámi eftir að heim er komið.
Frá stofnun Sólheima, árið 1930, hafa umhverfismál ætíð gegnt mikilvægu hlutverki. Byggðahverfið er hluti af Global Eco-Village network og hefur það að takmarki að skapa sjálfbært samfélag. Sesseljuhús umhverfissetur á Sólheimum er fræðslusetur um umhverfismál og sjálfbær bygging sem þýðir að allur efniviður hússins sem og annað sem því við kemur verður að uppfylla strangar umhverfiskröfur. Bakhjarlar starfsemi Sesseljuhúss eru Umhverfisráðuneytið, Hitaveita Suðurnesja og Landsbankinn.
Í starfsemi Sesseljuhúss umhverfisseturs er aðaláhersla lögð á umhverfisfræðslu í samstarfi við bæði innlenda og erlenda aðila og auk þess er unnið að umhverfismálum á Sólheimum. Skipulögð eru erindi fyrir hópa, fræðslufundir og málþing fyrir almenning, allt með áherslu á umhverfismál. Á hverju sumri er opnuð fræðslusýning um umhverfismál og nú er tekið nýtt skref með háskólanámi í umhverfisfræðum. Til Sólheima eru komnir 14 nemendur ásamt starfsfólki og munu þau búa hér í 3 mánuði. Námið hefur yfirskriftina “Sjálfbær þróun í sjálfbæru samfélagi” og má skipta í þrennt:
- Kúrsa sem kenndir verða í Sesseljuhúsi.
- Vettvangsferðir um landið þar sem fræðst er um umhverfismál á Íslandi sem og almennt um land og þjóð.
- Umhverfisverkefni á Sólheimum sem miða öll að því að gera umbætur í umhverfismálum á staðnum.
Umsjón og skipulagning námsins á Íslandi er í höndum Sesseljuhúss umhverfisseturs.
Forstöðumaður Sesseljuhúss er Bergþóra Hlíðkvist Skúladóttir. Sjá vef Sesseljuhúss .
Myndin er frá skólasetningunni þann 7. september sl.
Birt:
Tilvitnun:
Bergþóra Hlíðkvist Skúladóttir „Sjálfbær þróun í sjálfbæru samfélagi“, Náttúran.is: 11. september 2007 URL: http://nature.is/d/2007/09/11/sjlfbr-run-sjlfbru-samflagi/ [Skoðað:3. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 15. janúar 2008