Hinn óbeini sparnaður umhverfisstarfs
Þó svo að hinn beini sparnaður sem hlýst af umhverfisstarfi sé mikilvægur er hinn óbeini jafnvel enn mikilvægari.
Fyrsti hluti umhverfisstarfs er umhverfisúttekt. Hún felur í raun í sér að fyrirtækið kortleggur útgjöld sín vegna hita og rafmagns, eldsneytis og aksturs, hráefna, pappírsnotkunar, úrgangsgjöld o.s.frv.
Næsta skref er að setja þetta í samhengi við rekstur fyrirtækisins og búa til lykiltölur til að fylgjast með. Þó það hljómi sjálfsagt þá eykur þetta verulega skilning stjórnenda og ekki síður starfsmanna á eðli rekstrarins, útgjöldum og verðlagningu á vörum og þjónustu. Auk þess verða allir meðvitaðri um kostnað og starfsmenn fara ósjálfrátt að hugsa um umhverfismál og kostnað. Sparnaður og að gera hlutina rétt verður ákveðið gildi innan fyrirtækisins.
Það er erfitt að útskýra þetta öðruvísi en með dæmi. Flestir þeir sem hafa búið erlendis og hafa flokkað úrgang í nokkur ár hafa átt afskaplega erfitt þegar þeir koma aftur til Íslands og það er ekki boðið upp á sorpflokkun. Gildismat hefur breyst og fólk gerir sér ekki grein fyrir því fyrr en það er sett aftur í sömu aðstæður og það var áður en hegðunarmynstrið breytist. Sóun sem var áður ósjálfráð sættir fólk sig ekki við í dag.
Hinn óbeini sparnaður er margvíslegur og snertir fyrirtæki á flestum sviðum.
Fyrirtæki sem er með gott orðspor í umhverfismálum á auðveldara með að afla sér tilskilinna leyfa fyrir starfseminni þar sem að fólk er ósjálfrátt jákvæðara gagnvart þessum fyrirtækjum. Fyrirtækin fá einnig jákvæðari umfjöllun í fjölmiðlum o.s.frv. Þessi fyrirtæki þekkja starfsemi sína betur en flest önnur fyrirtæki og geta yfirleitt brugðist fljótt og málefnalega við orðrómi eða athugasemdum sem annars hefðu orðið þeim til vandræða. Geti fyrirtæki til dæmis ekki gert grein fyrir mengunartölum, mengunarkostnaði eða öðru þegar slys ber að höndum opinberar það að það hafi ekki nægilega stjórn eða þekkingu á málefnum fyrirtækisins sem leiðir af sér grunsemdir gagnvart fyrirtækinu og hefur áhrif á orðspor þess.
Góð þekking fyrirtækja á umhverfismálum leiðir til bætts orðspors og ímyndar um að það sé að gera það rétta. Það í sjálfu sér leiðir til betra orðspors á fjármálamörkuðum eða fjármálastofnunum sem leiðri til betri kjara. Umhverfisstarf bætir einnig samband fyrirtækisins við hagsmunaaðila eins og umhverfissamtök, íbúasamtök og félagasamtök. Það bætir einnig aðgengi að mörkuðum þar sem fyrirtæki sem vinnur að umhverfismálum velur sér gjarnan samstarfsaðila sem hugsa á svipuðum nótum og þeir sjálfir. Umhverfisstarf byggir upp traust opinbera aðila sem leiðir til auðveldara og traustara samstarfs við opinbera aðila varðandi leyfisveitingar og opinbert eftirlit.
Sá hluti sem oftast gleymist er að umhverfisstarf bætir starfsanda og gerir fyrirtækjum léttara að laða að sér hæft starfsfólk. Rétt ímynd fyrirtækja skiptir meira og meira máli þegar fólk velur sér vinnu. Fólk velur sér vinnustað þar sem því líður vel og þar sem það getur verið stolt af vinnustaðnum. Fyrirtæki með rétta viðskiptahugmynd hefur úr stærri hópi atvinnuumsækjenda að velja. Það er ekki margt ungt fólk í dag sem velur sér vinnu með þá framtíðarsýn að geta litið til baka þegar það fer á eftirlaun og sagt “ég spillti náttúrinni”. Til að gera þetta enn sýnilegra, hver vill selja sígarettur allt sitt líf og hafa á samviskunni að 20.000 manns hafi fengið krabbamein.
Fyrirtæki sem eru að gera rétta hluti geta valið úr stærri hópi umsækjanda og þurfa ekki að greiða eins mikið fyrir hæft starfsfólk.
Sjá „Eru umhverfismerktar vörur dýrar“?
Grafik: Guðrún Tryggvadóttir ©Náttúran.is
Birt:
Tilvitnun:
Finnur Sveinsson „Hinn óbeini sparnaður umhverfisstarfs“, Náttúran.is: 26. maí 2014 URL: http://nature.is/d/2007/05/26/hinn-beini-sparnaur-umhverfisstarfs/ [Skoðað:21. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 26. maí 2007
breytt: 14. júní 2014