Nú er hægt að kippa ferskum kúrbít og ilmandi papriku af lifandi, vatnsræktuðum plöntum í eldhúsglugganum.

"Vatnsúðaræktunarkerfi bjóðast nú íslenskum heimilum í fyrsta sinn. Vatnsrækt þýðir að engin mold er notuð við ræktun, heldur einungis súrefnisríkt vatn, góð næring og hiti," segir María Nordal, eigandi Innigarða á Dalvegi.

"Vaxtarskeið plantna verður margfalt hraðara og afurðir bæði stærri og þyngri í vatnskerfum, enda fær plantan alltaf mesta mögulega súrefni og næringu. Auk þess er komið í veg fyrir notkun skordýraeiturs, þar sem pöddur og aðrar óværur í mold lifa ekki í vatnsrækt," segir María sem selur vatnsræktarkerfi í ýmsum gerðum, og er sjálf með duglegar agúrku-, tómata-, papriku- og kúrbítsplöntur heima í Kópavogi.

"Matgæðingar eru yfir sig hrifnir af litlu kerfi sem staðið getur á eldhúsborðinu, margir kjósa kerfi fyrir blómaskála og aðrir fara út í stærri rennukerfi sem þeir koma fyrir í bílskúrnum með gróðurlýsingu. Allur áburður er vistvænn og lífrænn, og ekki skemmir hve gaman er fyrir uppalendur að geta kennt börnum sínum ræktun heima í eldhúsi. Vatnsrækt er ekki heldur eingöngu bundin við sumarið, heldur má njóta ræktunar, búbótar og ferskrar uppskeru allan ársins hring.

Birt:
28. apríl 2008
Höfundur:
Thordís
Uppruni:
Fréttablaðið
Tilvitnun:
Thordís „Ferskt og lífrænt heima“, Náttúran.is: 28. apríl 2008 URL: http://nature.is/d/2008/04/28/ferskt-og-lifraent-heima/ [Skoðað:4. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: