Háskólinn í Reykjavík hefur tekið upp þá nýjung að gefa nemendum og starfsmönnum kost á að leigja rafbíla til að skjótast erinda sem koma upp. Hugmyndin er að alla jafna geti fólk tekið strætó, hjólað eða gegnið til vinnu og náms en geti, ef þörf krefur, fengið ökutæki með skömmum fyrirvara.  Á síðunni forskot.is er hægt að fá leigða fararskjóta og eru í boði bæði reiðhjól og þessir nýju rafbílar

Bílarnir eru afrakstur rannsóknarverkefnis tækni og verkfræðideildar sem breytti bensínbílum í rafbíla. Það er að sögn kostnaðarsamt framtak og því ágætt að bílarnir geti skilað einhverju til baka. Ætla má að viðskiptadeildin hefði lagt til að keyptir væru tilbúnir rafbílar en það má væntanlega telja rannsóknina sjálfa til ákveðinna tekna fyrir nemendur og kennara sem að henni stóðu. Leiguverð rabílanna er, samkvæmt verðskrá forskot.is, 100 kr upphafsgjald og 490 kr á klukkustund. Einnig er gefin upp 7.500 kr  leiga fyrir daginn sem jafngildur um 16 stundum. Reiðhjól kosta 125 kr á klukkustund en 250 kr dagurinn.

Framtakið er gott og það er góðs viti að reynt sé að stemma stigu við óhóflegum akstri einkabíla í Reykjavík.

Birt:
19. maí 2010
Höfundur:
Einar Bergmundur
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Einar Bergmundur „Rafbílar í Háskólanum í Reykjavík“, Náttúran.is: 19. maí 2010 URL: http://nature.is/d/2010/05/19/rafbilar-i-haskolanum-i-reykjavik/ [Skoðað:21. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: