Björgvin G. og Þórunn mótfallin áformuðum Þjórsárvirkjunum
Í viðtali við Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðhera, í fréttum á Stöð2 í gær, kemur skýrt fram að honum finnist að slá eigi áformuðum virkjunum með tilheyrandi lónum í neðri hluta Þjórsár á frest eða hætta alfarið við framkvæmdirnar. Ljóst sé að engin sátt sé um það í samfélaginu að fara í vatnsaflsvirkjanir sem hafa með sér neikvæð umhverfisáhrif.
Björgvin er þannig annar ráðherra ríkisstjórnarinnar sem að lýsir yfir andstöðu við áform Landsvirkjunar um þrjár nýjar Þjórsárvirkjanir. Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra lýsti fyrst ráðherra opinberlega yfir andstöðu sinni (sjá frétt) en Össur Skarphéðinsson sem annars þarf ekki að toga orðin uppúr segir tormerki á að hann tjái sig í þessu máli.
Náttúran.is hefur sent fyrirspurn til Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur utanríkisráðherra um skoðun hennar á málinu og mun svarið birtast hér á vefnum þegar og ef að það berst.
Myndin er af Björgvini G. Sigurðssyni viðskiptaráðherra.Birt:
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Björgvin G. og Þórunn mótfallin áformuðum Þjórsárvirkjunum“, Náttúran.is: 4. janúar 2008 URL: http://nature.is/d/2008/01/04/bjorgvin-og-thorunn-motfallin-aformuoum-thjorsarvi/ [Skoðað:21. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.