Í grein á heimasíðu HB Granda koma fram upplýsingar um væntanlega vottun árbyrgra fiskveiða við Ísland. Í undirbúningshópi eru taldir: dr. Kristján Þórarinsson frá LÍÚ og varaformaður Fiskifélags Íslands, sem er formaður hópsins, Guðbergur Rúnarsson frá Samtökum fiskvinnslustöðva, Rúnar Þór Stefánsson frá HB Granda, Gunnar Tómasson frá Þorbirni hf., Örn Pálsson frá Landssambandi smábátaeigenda og Steinar Ingi Matthíasson frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu auk þess sem Finnur Garðarson ný bakaður umhverfisfræðingur hefur starfað með hópnum en hann hefur unnið að undirbúningi merkisins. Það vekur athygli að enginn fulltrúi Fiskistofu né frá nokkrum náttúruverndasamtökum situr í hópnum. Finnur segir að unnið sé eftir leiðbeiningum FAO, matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna um vottun og umhverfismerkingar afurða fiskveiða (The FAO  Guidelines for the Ecolabelling of Fish and Fishery Products from Marine Capture Fisheries). Inntur eftir gangi mála segir hann: ,,Helsti óvissuþátturinn í vottunarferlinu er sá hvort vottunaraðilinn þurfi sérstaka faggildingu til að staðfesta að hann sé fær um að vinna verkið. Það skýrist ekki fyrr en vottunaraðilinn hefur séð kröfulýsinguna og borið hana undir faggildingaraðilann. Allt þetta er í deiglunni. Við gerum okkur vonir um að vottunarferli ljúki fyrir lok næsta árs hvað fyrstu stofnana varðar en erum þó viðbúnir því að það geti tekið lengri tíma.“ Að lokum talar hann um kynningu á merkinu á af orðum hans má ætla að þar sé mikið verk fyrir höndum með ærnum kostnaði.

Samsetning undirbúningshópsins og þeir hagsmunir sem þar liggja gera þessa ætluðu vottun strax nokkuð tortryggilega og vekur spurningar um hvort ekki hafi mátt nýta vottun og ferli sem þegar hefur hlotið viðurkenningu og er þekkt á mörkuðum. Hugmyndafræðin bak við vottanir almennt er sú að best sé að merkin sé fá með skýrar línur og markmið. Þannig er Tún eini vottunaraðilnn á Íslandi sem vottar lífræna ræktun matvæla og þar með fiska. Norræni Svanurinn tryggir að umhverfissjónarmiða sé gætt við framleiðslu og notkun varnings valdi sem minnsum umhverfisspjöllum. 

Að markaðssetja vottun þannig að hún nái viðurkenningu er ekki einfalt mál. Það er ekki nóg að segjast vera góður og ábyrgur sjálfur. Það verður að koma frá þriðja aðila. Kaupendur í norður Evrópu eru nákvæmir þegar kemur að slíkum merkingum og láta ekki segja sér hvað sem er. 

LÍU brást ókvæða við þegar talsmaður MSC - Marine Stewardship Council taldi að íslenskur sjávaraútvegur gætti þurft að varast að taka upp eigin merkingar. Þeir töluðu um mafíósa og hótanir. Í viðtalinu var erfitt að sjá nokkra hótun. Aðeins aðvörun um að það er ekki eins einfalt að votta sjálfan sig og LÍÚ virðis halda.

Birt:
24. september 2008
Höfundur:
Einar Bergmundur
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Einar Bergmundur „Ábyrgar fiskveiðar Íslendinga“, Náttúran.is: 24. september 2008 URL: http://nature.is/d/2008/09/24/abyrgar-fiskveioar-islendinga/ [Skoðað:21. nóvember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 26. september 2008

Skilaboð: