VínberjasaftÚrval bændamarkaða á Íslandi eykst frá ári til árs enda áhugi aukist mikið á heimaræktuðu og framleiðslu beint frá býli nú á síðustu og „verstu“ eða að sumra mati „bestu“ tímum.

Náttúran hefur lagt mikið upp úr því að veita nákvæmar upplýsingar um það sem í boði er á þessu sviði á landinu öllu en við fjöllum bæði um einstaka markaði og skráum þá á Grænar síður og á Grænt Íslandskort til þess að auðvelda fólki að finna markaðina út um allt land.

Garðyrkjustöðin Engi í Laugarási starfrækir markað með lífrænt ræktuðu grænmeti og búsafurðum í sumar. Opið um helgar frá 4. júlí til 18. ágúst frá kl. 12:00 til 18:00. Á boðstólum er fjölbreytt úrval af lífrænt ræktuðu grænmeti, kryddjurtum, lífrænum ís frá Bíóbúi o.fl. Kryddjurtagarður og ávaxtatré eru til sýnis og þúsund fermetra völundarhús úr trjágróðri og landnámshænum.

Sveitamarkaður í Eyjafjarðasveit er nú haldinn fimmta sumarið í röð á torgi gömlu garðyrkjustöðvarinnar við Hrafnagil. Á markaðinum er boðið upp á brauð og kökur, sultur, saft, handverk, blóm og jurtir o.fl. Markaðurinn er opinn á sunnudögum frá 11. júlí tl 15. ágúst frá kl. 11:00 - 17:00.

Aðrir markaðir eru; Bændamarkaðurinn á Flúðum, Sveitamarkaðurinn á Hvolsvelli, Heimamarkaðsbúðin í Höfn í Hornafirði, Gónhóll á Eyrarbakka, Sveitamarkaðurinn við Laxá í Leirársveit, Grettisból á LaugarbakkaBændamarkaðurinn Dalsseli í Mosfellsdal og Bændur í bænum sem staðsett er í Árbænum í Reykjavík.

Sjá Bændamarkaði á Græna Íslandskortinu.

Grænkortaskilgreining fyrir Bændamarkaði er:
„Markaður með staðbundnar og lífrænt ræktaðar vörur. Geta verið með óhefðbundnari framleiðslu úr sveit eins og blóm, handverk, bakaðan mat, vín, ull eða jafnvel matreiðslubækur að hætti svæðisins. Bændamörkuðum og minni sveitabæjum er haldið á floti og sveitin helst græn, auk þess sem maturinn þarf ekki að ferðast langt og er því ferskur og góður. Þú getur upplifað árstíðaskiptin með hverri nýrri uppskeru á markaðnum. Það myndast oft vingjarnleg stemmning á þessum mörkuðum.“

Ef einhver lumar á upplýsingum um fleiri sveitamarkaði og bændamarkaði þá látið okkur vita á nature@nature.is.
Ljósmynd: Vínberjasafi á boðstólum á sveitamarkaðinum í Dalseli, Guðrún Tryggvadóttir.

Birt:
12. júlí 2010
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Sveita- og bændamarkaðir í sumar“, Náttúran.is: 12. júlí 2010 URL: http://nature.is/d/2010/07/12/sveita-og-baendamarkadir-i-sumar/ [Skoðað:21. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: