Gluggi
Gluggar hleypa mikilli orku út úr húsinu. Vel einangraðir gluggar, tvöfaldir og jafnvel þrefaldir spara til lengri tíma litið mikla peninga því orkan sem smýgur út um gluggann nýtist engum. Því er einangrunargildi glugga nokkuð sem skiptir miklu máli þegar velja skal glugga í ný hús. Á líftíma sínum í húsinu spara þeir allavega fyrir sjálfum sér, fyrir eigendur sína. Vel staðsettir gluggar spara einnig lýsingarkostnað.
Ákveðnar vörur eru ekki knúnar orku en geta þrátt fyrir það verið orkusparandi. Gluggar eru dæmi um slíka vöru. Orkunýtni (einnig nefnt kólnunartala) húsa þar á meðal glugga er mæld í U-gildum, það er, orkutap fyrir hvern fermetra og hitamismunar inni og úti mælt í Kelvin (W/m2 K).
Gluggar með álkörmum eru út frá umhverfissjónarmiðum gríðarlega neikvæðir því mikla orku þarf til að framleiða álið, náttúruauðlindum er spillt, flytja þarf álið um langan veg frá súrálsnámum til álbræðslu í fjarlægum löndum, síðan til framleiðanda gluggans og til neytandans. Eftir líftíma hússins er álið einnig til vandræða í náttúrunni, í þúsundir ára.
PVC-gluggar hafa einnig neikvæð umhverfisáhrif og öll efni úr PVC ættu ekki að vera í húsinu. Þeir eru viðhaldsfrírri en viðargluggar en hafa þann leiða galla að vera umhverfisspillar.
Þennan hugsanagang verðum við að byrja að tileinka okkur ef að umhverfisvænar byggingar eiga að verða að veruleika hér á landi. Ef litið er framhjá umhverfisáhrifum erum við ekki að komast hjá neinum vandamálum auk þess sem við erum að sóa dýrmætum auðlindum og peningunum okkar.
Birt:
Tilvitnun:
Náttúran er „Gluggi“, Náttúran.is: 26. júní 2007 URL: http://nature.is/d/2007/06/26/gluggi/ [Skoðað:21. nóvember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 2. maí 2014