Í skoðanakönnun sem Capacent Gallup gerði fyrir Græna netið, Náttúruverndarsamtök Íslands og Landvernd í byrjun apríl kemur fram sterk andstaða sjóðfélaga í lífeyrissjóðum við að lífeyrissjóðir þeirra leggi fjármagn í frekari virkjanaframkvæmdir vegna stóriðju.

Úrtakið var 1350 manns á öllu landinu, 18 ára og eldri valdir af handahófi úr Viðhorfahópi Capacent Gallup og var svarhlutfall 63,2%. Spurt var: Ertu hlynnt(ur) eða andvíg(ur) því að lífeyrissjóðurinn þinn leggi fjármagn í frekari virkjanaframkvæmdir vegna stóriðju?

Sérstaka athygli vekur að þegar viðhorf þeirra sem eru hlynntir og andvígir eru skoðuð nánar kemur í ljós að aðeins 7,9% eru alfarið hlynnt því að lífeyrissjóður þeirra leggi fjármagn í virkjanir fyrir stóriðju en 21,8% sjóðsfélaga eru alfarið á móti því. Þegar tekin eru saman svör þeirra sem hafa sterka skoðun á málinu sést að aðeins 14,6 % eru alfarið eða mjög hlynnt en 30,2% alfarið eða mjög andvíg.

Undanfarið hafa fjárfestingar og fjármögnun lífeyrissjóða í virkjunum fyrir stóriðju verið mikið í umræðunni. 14 lífeyrissjóðir hafa keypt 33,4% í HS Orku, rætt hefur verið um kaup lífeyrissjóða á hluta í Landsvirkjun og viðræður standa yfir við lífeyrissjóði um að kosta byggingu Hverahlíðarvirkjunar til að uppfylla samning OR við Norðurál vegna álvers í Helguvík.

Hvort sem ástæðurnar eru sterk andstaða við áframhaldandi framkvæmdir gegn náttúru landsins fyrir stóriðjuhagsmuni eða eðlilegur varhugur við áhættusamar fjárfestingar er niðurstaða könnunarinnar skýr skilaboð til stjórna lífeyrissjóðanna um að hverfa frá öllum slíkum áformum. Þau skilaboð eru hollt nesti fyrir aðalfundi sem flestir lífeyrissjóðir boða til þessa dagana.

Grafík: Niðurstöður kannanarinnar í skífuriti.

Birt:
28. apríl 2012
Höfundur:
Landvernd
Tilvitnun:
Landvernd „Lífeyrissjóðsfélagar vilja ekki setja fjármagn í virkjanaframkvæmdir vegna stóriðju“, Náttúran.is: 28. apríl 2012 URL: http://nature.is/d/2012/04/28/lifeyrissjodsfelagar-vilja-ekki-setja-fjarmagn-i-v/ [Skoðað:3. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: