Söfnun undirskrifta til varnar orkuauðlindum Íslands gengur gríðarlega vel: Þegar þetta er skrifað hafa safnast 37.742 undirskriftir á áskorun til stjórnvalda um orkuna okkar á orkuaudlindir.is !  Stefnt var að 35.000 sem hefur nú náðst og nokk betur!

Söngurinn þagnaði aldrei í gær og fyrradag. Í Norræna húsinu, á Selfossi og í Bolungavík. Og Maraþon-orku-karókí heldur áfram í dag frá þrjú til tólf sleitulaust með stigmagnandi stuði. Skapast hefur sú hefð að syngja hópsöng þegar undirskriftir standa á þúsundum og von er á mjög háværri söngrödd þjóðarinnar þegar 35 þúsundin nást !!!

Og út um land; á Akureyri byrjar ballið á Brekkugötunni klukkan átta og í Langholti í Staðarsveit á Snæfellsnesi hefst söngurinn líka klukkan átta. Verið er að koma upp hljóðfærunum í Sláturhúsinu á Egilsstöðum, í Reykjanesbæ og víðar um land.

Í Langholti í kvöld:

Efnt er til þjóðarkarókís í tónleikasal gistiheimilisins Langaholts í Staðarsveit á Snæfellsnesi að kveldi laugardagsins 8. janúar. Karókímaraþonið er liður í stærsta söngmóti Íslandssögunnar en nú ómar karókísöngur um allt land. Óskin er einföld: Náttúruauðlindir Íslands í eigu og lögsögu almennings! Hljóðfæri og spilarar verða á staðnum en einnig er velkomið er að mæta með hljóðfæri og syngja við eigið undirspil eða vina. Söngurinn hefst kl. 20:00.

Laglausir, lagvissir, hvíslarar, raularar, mállausir, stapparar, klapparar og stórsöngvarar, bassar, altar, tenórar jafnt sem sópranar eru hvattir til að koma og láta í sér heyra.

Allir eiga sér rödd!

Ljósmynd: Dettifoss, Árni Tryggvason.

Birt:
8. janúar 2011
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Maraþon-karaókíið heldur áfram um allt land“, Náttúran.is: 8. janúar 2011 URL: http://nature.is/d/2011/01/08/marathon-karaokiid-heldur-afram-um-allt-land/ [Skoðað:19. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: