Vík Prjónsdóttir er samvinnuverkefni Brynhildar Pálsdóttur, Egils Kalevi Karlssonar, Guðfinnu Mjallar Magnúsdóttur, Hrafnkels Birgissonar, Þuríðar Rósar Sigurþórsdóttur og prjónastofunnar Víkurprjón í Vík í Mýrdal.

Verkefninu var í upphafi ætlað að taka íslenska prjónaframleiðslu til rækilegrar endurskoðunar og hanna nýjar spennandi prjónavörur úr íslenskir ull. Það hefur tekist frábærlega vel. Frá byrjun var áhersla lögð á finna leiðir til að tengja sögu-, þjóðlega hefð og náttúruna með áherslu á notagildi og sérkenni sem skapað gæti framleiðslunni ótvíræða sérstöðu. Vörur eins og „Skegghúfan“ og værðarvoðir í útfærslum byggða á þjóðsögunni um selshaminn hafa nú verið framleiddar í nokkrum útfærslum. Yfirbreiðslur fyrir tvo, gólfteppi með hesti (góður sem „lestrarhestur“), sjóteppi og svæðisteppi með Mýrdalsjökli og umhverfi hans hafa einnig notið mikilla vinsælda.

Framleiðslan ný tur sívaxandi vinsælda og pantanir berast víða að. Vík Prjónsdóttir er gott dæmi um það sem hægt er að gera með opnum huga, skipulagðri hugsun og áræðni að leiðarljósi. Íslenskir hönnuðir hafa bæði kjark og þor til að umbreyta íslenku atvinnulífi, fái þeir aðeins tækifæri til þess. Víkur Prjónsdóttir tekur þátt í Paris Fashion Week, Menswear Tískuviku Parísar í ár. Öll framleiðslan er úr 100 % íslenskri ull og allar vörur eru framleiddar í prjónaverksmiðju Víkurprjóns í Vík í Mýrdal.

Vörurnar eru til sölu í Epal, Kronkron, Þjóðminjasafninu og Scandinavian Grace í New York.
Sjá nánar á vef Víkur Prjónsdóttur.

Efri myndin er af Brynhildi Pálsdóttur, Agli Kalevi Karlssyni, Gudfinnu Mjöll Magnúsdóttur, Hrafnkeli Birgissyni, Þuríði Rós Sigurþórsdóttur hönnuðunum á bak við Vík Prjónsdóttur.
Neðri myndin er af einni útgáfu af „Selshaminum“.

Birt:
27. janúar 2008
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Vík Prjónsdóttir slær í gegn“, Náttúran.is: 27. janúar 2008 URL: http://nature.is/d/2008/01/27/vikur-prjonsdottir-slaer-i-gegn/ [Skoðað:21. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 23. október 2009

Skilaboð: