Klósett
Klósettið notar mikið vatn og vatnseyðslan fer m.a. eftir því hve oft við sturtum niður. Gömul klósett sturta niður um 15-20 lítrum í hvert skipti, nýrri gerðir um 3-6 lítrum. Í gömul klósett er hægt að setja múrsteina í vatnskassann til að minnka vatnsmagnið í vatnskassanum.
Þegar við stöndum frammi fyrir því að þurfa að kaupa nýtt klósett er gott að kaupa vatnssparandi klósett. Vatnssparandi klósett hafa „sturta niður“ takkann merktan með annars vegar heilum hring og annars vegar hálfhring. Ef ýtt er á hálfhringinn er sturtað lítið niður (úr hálfum vatnskassanum) en ef ýtt er á stóra hringinn er sturtað niður úr öllum kassanum.
Margar gerðir jarðgerðarklósetta eru nú einnig að koma á markað hérlendis. Enn sem komið er er útbreyðsla þeirra þó lítil en þau eru án efa umhverfisvænasta lausnin því ekki þarf að leiða afrennslið burtu og út í sjó eða í rotþró heldur umbreytist saurinn í dýrindis áburð eftir örfáa mánuði.
En þó að við höfum aðeins venjulegt klósett er samt margt sem við getum haft í huga. T.d. að setja ekki sterk efni, lyf eða önnur eiturefni í klósettið þar sem þau munu berast út í umhverfið, nota klósettpappír í hófi og velja umhverfisvænan klósettpappír.
Birt:
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Klósett“, Náttúran.is: 21. júní 2007 URL: http://nature.is/d/2007/06/21/klsett/ [Skoðað:21. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 17. maí 2014