Matur úr heimabyggð vinningshafi ársins
Á árinu 2007 var umræðan um framtíð íslenskrar matargerðar og framleiðslu áberandi og er hún í samræmi við það sem er að gerast víða um heim þ.e. að fólk er farið að kunna að meta það sem tengist eigin menningu og sögu og er framleitt handan við hornið frekar er exótískan mat sem fluttur er að um langan veg. Lífrænn matur á meira að segja undir högg að sækja í samanburði við local food og slow food þ.e. ef hann er fluttur heimshorna á milli. Umhverfisáhrif af flutningunum einum saman geta verið miklu meiri en af hefðbundinni ræktun. Nú þegar er verið að undirbúa „sjálfbæra vottun“ sem tekur þá til allra umhverfisáhrifa sem hljótast af vörunni, frá framleiðslu til neytenda. Sjá grein.
Hugtök eins og; matur úr héraði, beint frá býli, hvannarlamb og listrænt fjallakonfekt eru örfá dæmi um það sem borið hefur verið á borð og verið áberandi skemmtilegt á árinu. Sem dæmi um áhugann sem er að vakna fyrir náttúrulegum tækifærum í mataragerð má nefna örfá dæmi:
Verkefnið Beint frá býli kynnti handbók um heimavinnslu í byrjun árs og er komið vel á skrið. Á árinu unnu nokkrir þátttakendur í verkefninu að tilraunaverkefnum í samvinnu við Listaháskóla Íslands og Nýsköpunarmiðstöð Íslands. Útkoman var hreint út sagt frábær og er vonandi aðeins angi af því sem að við eigum eftir að sjá í framtíðinni. Sjá lista yfir þátttakendur í Beint frá býli hér á Grænum síðum.
Félagið Matur-Saga-Menning hélt fjölsótt fróðskaparkvöld um jurtanytjar í Matarsetrinu Grandagarði í september þar sem að nokkrir náttúruspekúlantar á sviði matarmenningar fræddu fundarmenn um ber, söl, fjallagrös og sveppi. Sjá frétt um fróðskaparkvöldið.
Yfir tíu þúsund gestir sóttu sýninguna MATUR-INN 2007 - Local Food, í Verkmenntaskólanum á Akureyri í október. Á sýningunni kynntu 60 Norðlenskir framleiðendur afurðir sínar við frábærar undirtektir. Sjá frétt um sýninguna.
Möguleikarnir sem felast í hönnun og framleiðslu hágæða náttúruafurða fyrir íslenskan jafnt sem erlendan markað eru óþrjótanlegir. Það eina sem stendur í vegi fyrir því að það geti verið ein af aðalstoðum í íslenskri framleiðslu er hve lítið áhættufjármagn er í boði á Íslandi og hve langur vegur er frá hugmynd til veruleika fyrir frumkvöðla. Það er lítilla framfarabóta að kosta ekki meiru til því árangur okkar er og verður í beinu samræmi við það fjármagn sem rennur til nýsköpunar.
Íslenski uppruninn mun þó í framtíðinn ekki nægja til að afla íslenskri framleiðslu þeirrar sérstöðu sem gerir hana ómótstæðinlega. Hreint náttúruland eins og Ísland er í augum flestra, ætti að leggja áherslu á að votta hreinleika sinn með lífrænni vottun og eða umhverfisvottun. Sjá lista yfir þá aðila sem hafa lífræna vottun á Íslandi í dag.
Íslenskir bændur í lífrænni framleiðslu eru enn að kljást við erfiðleika og skilningsleysi stjórnvalda þó allt bendi til þess að neytendur krefjist í síauknum mæli lífrænnar innlendrar framleiðslu. Bændasamtökin (og raforkusalar) verða að styðja við bakið á þeim sem taka vilja skrefið til lífrænnar framleiðslu. Á árinu gáfust nokkrir lífrænir bændur upp á streðinu þrátt fyrir að sala á lífrænum afurðum aukist dag frá degi þar sem þær eru fáanlegar. Mikið magn af lífrænni ferskvöru er nú flutt inn til að anna eftirspurn. Á árinu 2008 verður þessu vonandi snúið rækilega við. Sjá grein um vannýtt tækifæri í byggðaþróun.
Krafan um umhverfisvottað sjávarfang hefur leitt til þess að vottaður fiskur verður bráðlega fáanlegur hér á landi. Veitingahús sem vilja sérhæfa sig í að framreiða aðeins mat úr lífrænu hráefni hefur vantað hráefni og erlendir markaðir greiða meira fyrir vottaða vöru en óvottaða. Framtíðin er komin til Íslands. Sjá frétt.
Efsta myndin: Epli er af treehugger.com. Ljósmynd: Súkkulaðifjöll eftir Brynhildi Pálsdóttur, ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir.Birt:
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Matur úr heimabyggð vinningshafi ársins “, Náttúran.is: 30. desember 2007 URL: http://nature.is/d/2007/12/30/matur-ur-heimabyggo-og-nyskopun-vinningshafar-arsi/ [Skoðað:21. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 5. maí 2011