Í dag, á Degi umhverfisins og 5 ára afmæli vefsins, kynntum við Endurvinnslukorts-app sem er fyrsta græna appið af þremur sem við áformum að klára nú í ár.

Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra var fyrst til að prófa appið á hátíðarhöldum dagsins í Listasafni Sigurjóns Ólafssonar á Laugarnesi. Appið er til samtykktar hjá Apple fyrir iPhone og ætti að birtast á næstu dögum í AppStore. Android útgáfa er einnig væntanleg á Market innan skamms. Endurvinnslukortið er ókeypis.

Appið eða snjallsímaforritið er hannað til þess að hjálpa öllum að finna næstu móttökustöð, sjá hvort hún sé opin þegar við hyggjumst losa okkur við rusl og sýnir okkur leiðina á korti. Auk þess eru ítarlegar upplýsingar um 113 endurvinnsluflokka og annað fræðsluefni um endurvinnslu að finna á kortinu.

Endurvinnslukorts-appið verður einnig gefið út á ensku undir heitinu The Recycle Map og þjónar þannig einnig landsmönnum sem ekki tala fullkomna íslensku og erlendum ferðamönnum.

Tilgangur Endurvinnslukortsins er að gefa almenningi eins fullkomið yfirlit og mögulegt er yfir hvar á landinu sé tekið við hvaða flokkum til endurvinnslu. Endurvinnslukortið er eitt af fjölmörgum samfélagslegum verkefnum sem Náttúran.is hefur ráðist í að eigin frumkvæði en ekkert slíkt yfirlit var til, í aðgengilegu formi fyrir allan almenning, áður en ráðist var í gerð fyrsta Endurvinnslukortsins á vef Náttúrunnar haustið 2008. Vefkortið hefur einnig verið uppfært og þjónustuupplýsingar auknar. Endurvinnslukorts-appið hefur verið í þróun frá hausti 2011 og mun halda áfram að vera í stöðugri þróun enda eiga nú miklar breytingar sér stað á sviði endurvinnslumála á Íslandi.

Grafík: Hnappur Endurvinnslukortsins sem sýnir ruslatunnu með vængjum enda er undirtitill Endurvinnslukortsins „þar sem ruslið þitt fær annað líf“. Hönnun Guðrún A. Tryggvadóttir.

Birt:
25. apríl 2012
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Endurvinnslukort Náttúrunnar fyrir snjallsíma og spjaldtölvur “, Náttúran.is: 25. apríl 2012 URL: http://nature.is/d/2012/04/25/endurvinnslukort-natturunnar-fyrir-snjallsima-og-s/ [Skoðað:22. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 26. apríl 2012

Skilaboð: