Metnaðarfullar áætlanir á réttri leið
Bretar draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 2% milli ára
Nýjustu tölur umhverfisráðuneytis Breta sýna að þeim gengur vel að ná settum markmiðum í loftslagsmálum.
Hilary Benn, umhverfisráðherra Bretlands, sagði í gær að landið væri að ná árangri í samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda, en að "meiriháttar breytingar" væri þörf í öllu efnahagslífinu ef landið ætlaði að ná markmiðum sem sett eru í fyrirliggjandi frumvarpi ríkisstjórnarinnar um loftslagsbreytingar.
Bráðabirgðatölur um losun gróðurhúsalofttegunda á öllu Bretlandi árið 2007 sýndu 2% samdrátt miðað við árið áður, eða 639,4 milljónir ígildistonna af CO2 í stað 652,3 milljóna tonna. Benn sagði árangurinn helgast af aukinni notkun gass í stað kola og minni almennri notkunar jarðefnaeldsneytis á heimilum og í iðnaði.
"Þessar tölur sýna að við erum að ná árangri í samdrætti útblásturs og það stefnir í að við náum lengra en Kyoto-markmiðin," sagði umhverfisráðherrann. Hann bætti því hins vegar við að til að ná markmiðunum sem Bretar hafa sjálfir sett sér fram til ársins 2050 þurfi meiriháttar umbreytingu í öllu efnahagslífi landsins, og nefndi kolefnismarkaði og kolefnisskerta tækni í iðnaði.
Í frétt Guardian er bent á að Andrew Tyrie, ráðgjafi í fjármálaráðuneytinu á síðustu valdatíð Íhaldsflokksins, skrifaði nýlega grein í The Times þar sem hann gagnrýndi fyrirætlanir stjórnar Verkamannaflokksins um 60% samdrátt fyrir árið 2050 fyrir að vera "efnahagslega stórhættulegar" og sagði málflutning ríkisstjórnarmeðlima í umhverfismálum "hreina óra."
Skuldbindingar Breta samkvæmt Kyoto-bókuninni eru að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 12,5% á tímabilinu 2008-2012 miðað við árið 1990, en tölurnar sem nú birtast sýna að þegar hefur verið skorið niður um 19%. Ætlun ríkisstjórnar Gordon's Brown er að ganga enn lengra og skera niður um 60% fyrir 2050, líkt og kveðið er á um í frumvarpi um loftslagsbreytingar sem nú liggur fyrir breska þinginu.
Mynd: Viðskiptablaðið. Myndatexti: Gordon Brown, forsætisráðherra, og Hilary Benn, umhverfisráðherra, stinga saman nefjum. Benn tilkynnti í gær um að Bretar væru á réttri leið í stórtækum niðurskurðaráætlunum sínum sem Íhaldsmenn hafa gagnrýnt fyrir að vera óraunsæjar.
Birt:
Tilvitnun:
Viðar Þorsteinsson „Metnaðarfullar áætlanir á réttri leið“, Náttúran.is: 31. mars 2008 URL: http://nature.is/d/2008/03/31/metnaoarfullar-aaetlanir-rettri-leio/ [Skoðað:30. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.