Ný og afar viðamikil skýrsla sem birtist í tímaritinu Nature þ. 14. maí sl. staðfestir með aukinni vissu fyrri niðurstöður Vísindanefndar SÞ um að hlýnun jarðar er af mannavöldum.

Skýrslan byggir á meiri fjölda gagnasafna og beitir auk þess öðrum aðferðum en Vísindanefndin. Ákveðnara orsakasamband en áður er sett við tilteknar náttúrufarsbreytingar, svo sem bráðnun túndru og jökla.

Skýrslan þykir sæta tíðinum og er greint frá henni í helstu fjölmiðlum heims. Financial Times segir í fyrirsögn að með henni sé sönnunin fundin um loftslagsbreytingar af mannavöldum, og í fréttinni segir að vísindamenn geti nú í fyrsta sinn fullyrt með vissu að loftslagsbreytingar síðustu fjögurra áratuga séu af mannavöldum og eigi sér ekki náttúrulegar skýringar.

Sýnir næmi jarðarinnar
Í frétt BBC segir að skýrslan tengi hitastig og náttúrufarsbreytingar á hverjum stað betur saman en áður. Höfundar skýrslunnar eru vísindamenn frá Ástralíu, Kína og Bandaríkjunum en aðalhöfundur hennar, Cynthia Rosenzweig, starfar á Goddard-stofnuninni sem rekin er af NASA, geimferðastofnun Bandaríkjanna. Rosenzweig og samstarfsmenn hennar notuðu um 30 þúsund ólík gagnasöfn um náttúrufarslegar breytingar á heimsvísu, mun fleiri en Vísindanefndin gerði, og báru saman við gögn um hitastig.

"Við sjáum að þetta er nátengt," sagði Rosenzweig í samtali við Reuters og lýsti því að fullyrða mætti með 99% vissu um þetta samband á hnattræna vísu, en með á milli 90 og 99% vissu innan heimsálfa. Í viðtali við BBC benti Rosenzweig á að þessi miklu og mælanlegu áhrif væru tilkomin vegna tiltölulega lítillar meðalhitastigshækkunar jarðar, eða á milli 0,5 og 0,6 gráður á Celcius. Þetta sagði hún sýna hve næm ýmis kerfi jarðar væru fyrir vægum hitabreytingum.

Á brattann að sækja
Financial Times vitnar í orð Barrys Brook, yfirmanns loftslagsrannsókna í Háskólanum í Adelaide, sem bendir á að spár geri ráð fyrir miklu meiri aukningu á hitastigi næstu öldina: "Þessar breytingar gefa aðeins forsmekkinn af því sem við eigum líklega í vændum, sérstaklega ef við höldum áfram kolefnisfrekum lifnaðarháttum okkar."

Francis Zwiers, fulltrúi Environment Canada, og Gabriele Hegerl frá Háskólanum í Edinborg, sem bæði ritrýndu greinina í Nature, sögðu í samtali við BBC skýrsluna vera þá fyrstu sem "tengir formlega" mældar breytingar á heimsvísu í náttúrufari og veðrakerfum við loftslagsbreytingar af mannavöldum, þar sem stærsti orsakaþátturinn er vaxandi útblástur gróðurhúsalofttegunda.

Í frétt Financial Times er bent á að þrátt fyrir sífellt órækari vísbendingar um þátt mannsins í mældum loftslagsbreytingum verði á brattann að sækja fyrir vísindamenn að sannfæra stjórnmálamenn og almenning um þetta, þar sem ýmislegt bendi til að þrátt fyrir allt verði hlýnun ekki hröð næsta áratuginn, meðal annars vegna veðurfyrirbærisins La Nina í Kyrrahafinu og kólnunarskeiðs í hafstraumum á Atlantshafi. Hlýnun verði hins vegar þeim mun hraðari að því loknu, og vísar FT í rannsóknir sem einnig birtust nýlega í Nature.

Staðfestar afleiðingar í öllum heimsálfum
Þessar staðbundnu náttúrufarsbreytingar eru dæmi um afleiðingar loftlagsbreytinga af mannavöldum samkvæmt nýrri rannsókn í Nature:

  • Norður-Ameríka: 89 tegundir plantna blómgast fyrr, hvítabjörnum fækkar og þeir taka upp kannibalisma, farfuglar koma til landsins og verpa fyrr en áður, genabreytingar í moskító-flugum
  • Evrópa: Jöklar í Ölpunum bráðna, frjókorn taka að dreifast fyrr í Hollandi, langtímabreytingar á fiskstofnum í efri hluta Rhone-árinnar
  • Asía: Aukinn vöxtur síberíufuru í Mongólíu, snemmbúin þynning og uppbrot ísa á ám og vötnum í Mongólíu, breytingar á dýpt frera á túndrum Rússlands, fyrri blómgun ginkgo-trjáa í Japan
  • Suður-Ameríka: Eyðing jökla í Perú, bráðnun ísbreiðna í Patagóníu stuðlar að hækkun sjávarmáls
  • Afríka: Minnkandi framleiðni vistkerfisins í Tanganyika-vatni
  • Ástralía: Farfuglar koma fyrr til landsins, minnkandi vatnsmagn í Vestur-Viktoríu
  • Suðurskautið: 50% samdráttur í fjölda keisaramörgæsa, minnkandi áta, jöklar hopa

 

Birt:
18. maí 2008
Tilvitnun:
Viðar Þorsteinsson „Staðfestir að loftslagsbreytingar séu af mannavöldum“, Náttúran.is: 18. maí 2008 URL: http://nature.is/d/2008/05/15/risarannsokn-fer-i-saumana-afleioingum-loftslagsbr/ [Skoðað:21. nóvember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 15. maí 2008
breytt: 18. maí 2008

Skilaboð: