Dregið hefur úr óflokkuðu heimilissorpi í Reykjavík um 20% frá árinu 2006. 185 kg mældust á hvern íbúa Reykjavíkur á liðnu ári, en 233 kg árið 2006. Áhugi íbúa á flokkun sorps og breytt neyslumunstur er líklegasta skýringin á þessari breytingu.

Sorphirða Reykjavíkur sótti tæplega 22 þúsund tonn af óflokkuðu heimilissorpi árið 2009 en árið 2008 voru rúmlega 25 þúsund tonn sótt heim. Þegar mest var árin 2006 og 2007 vó sorpið rúmlega 27 þúsund tonn í tunnum Reykvíkinga.

Skýringar á samdrætti í óflokkuðu heimilissorpi eru nokkrar að mati Sigríðar Ólafsdóttur rekstrarstjóra Sorphirðunnar. Sú fyrsta er að hægt er að skipta út tunnu undir almennt sorp fyrir bláa flokkunartunnu sem tekur ekki aðeins dagblöð, auglýsingapóst og tímarit heldur einnig  fernur, umbúðapappír, prentpappír, sléttan pappa og karton. 2.500 bláar tunnur standa nú við heimili í borginni en hún er eitt af Grænu Skrefunum í Reykjavík. Aðrar ástæður eru endurvinnslutunnur Gámafélagsins og Gámaþjónustunnar, breytt neysla og að fleiri einstaklingar fara nú með flokkaðan úrgang á Endurvinnslustöðvar Sorpu en áður.

Sorphirðugjald í Reykjavík er óbreytt en veigamikil ástæða fyrir minna óflokkuðum úrgangi er sennilega sú að hægt er að lækka sorphirðugjaldið með því að skipta út tunnum fyrir bláar tunnur. Nefna má sem dæmi að íbúar í fjölbýlishúsi með þremur íbúðum greiða samtals 48.900 kr. á ári ef þar eru þrjár svartar tunnur en 40.000 kr. fyrir tvær svartar og eina bláa. Gjald fyrir bláa tunnu er 7.400 kr. á ári, 16.300 fyrir svarta og 8.150 fyrir græna (sem er undir almennt sorp en aðeins losuð hálfs mánaðarlega og ætluð þeim sem búa í einbýli og geta ekki fækkað tunnum). Sorphirðugjald í Reykjavík tekur mið af gerð sorpíláta, fjölda og losunartíðni.

Upplýsingar um sorphirðugjöld í Reykjavík

www.sorpa.is

Upplýsingamiði sem sendur var á heimilin í RVK 2009 gildir enn. (PDF)

Birt:
Jan. 30, 2010
Tilvitnun:
Umhverfis- og samgönguráð Reykjavíkur „Dregur úr óflokkuðu heimilissorpi um 20%“, Náttúran.is: Jan. 30, 2010 URL: http://nature.is/d/2010/01/30/dregur-ur-oflokkudu-heimilissorpi-um-20/ [Skoðað:Sept. 12, 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: Feb. 8, 2010

Messages: