Landvernd hefur farið þess á leit við Skipulagsstofnun að stofnunin kalli eftir niðurstöðum jarðfræðirannsókna sem fram hafa farið á fyrirhuguðum virkjunarsvæðum Þjórsár eftir að umhverfismat fyrir virkjanirnar fór fram.

Ný gögn um jarðfræði svæðisins kunna að hafa breytt forsendum verulega frá því að úrskurðir stofnunarinnar lágu fyrir í ágúst 2003 enda var jarðfræði svæðisins ekki nógu vel þekkt á þeim tímapunkti.

Í ljósi þess að umfangsmiklar rannsóknir á jarðfræði svæðisins hafa síðan farið fram er mikilvægt að Skipulagsstofnun meti, á grundvelli nýrra gagna, hvort ástæða sé til þess að endurskoða matskýrslurnar og eftir atvikum endurtaka umhverfismat fyrir virkjanirnar. Stofnunin hefur heimildir til endurskoðunar á matsskýrslu, sbr. 12. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum, sem stofnuninni ber að nota ef nýjar upplýsingar gefa tilefni til. Í 2. mgr. 12. gr. laganna segir m.a:

„Skipulagsstofnun getur ákveðið að endurskoða skuli matsskýrslu framkvæmdaraðila skv. 1. mgr. ef forsendur hafa breyst verulega frá því að álitið lá fyrir, svo sem vegna breytinga á náttúrufari eða landnotkun á áhrifasvæði framkvæmdarinnar, breytinga á löggjöf um umhverfismál, breytinga á alþjóðlegum skuldbindingum eða vegna tækniþróunar varðandi framkvæmdina. ...“

Ein af megin niðurstöðum skýrslu Páls Einarssonar jarðfræðings sem lá til grundvallar þegar matsferlið fór fram er að í hrauninu hafi fundist fjölmargar sprungur meðan á rannsóknum stóð og að telja verði líklegt að enn sé þar að finna ófundnar sprungur. Eða eins og það er orðað í skýrslunni:

„Several faults were discovered during this mapping project in addition to the ones
that were known before. It must be considered likely that there are still some faults in the area that have not been identified yet“


Þá kemur einnig fram að á svæðinu austan Skarðsfjalls sé mjög erfitt að finna sprungur og að einungis hafi fundist vísbendingar um sprungur á því svæði. Ekki sé þó ástæða til að ætla að sprungur þar séu færri en annarstaðar á svæðinu.

Eða eins og það var orðað í skýrslunni:
„The lava east of Skarðsfjall and near Þjórsá is notoriously difficult for fault identification. Only hints of faults have been found there. There is no reason, however, to believe that faults are fewer in this part of the zone than elsewhere.“

Umtalsverðar rannsóknir hafa farið fram á svæðinu eftir að matsferli lauk og ætla verður að þeim hafi m.a. verið ætlað að skýra þær óvissur sem bent er á í skýrslu Páls. Ljóst má vera að ný gögn, sem væntanlega skýra nánar þá mikilvægu óvissuþætti sem hér er um að ræða, kunna að gjörbreyta forsendum umhverfismatsins. Því kann að vera ástæða til endurskoðunar á matsskýrslu, sbr. heimildir stofnunarinnar í 12. gr. laganna.

Hér má nálgast bréf Landverndar til Skipulagsstofnunar.

Hér má nálgast jarðfræðiskýrlsu Páls Einarssonar sem lá til grundvallar í matsferlinu.

Af vef Landverndar.

Birt:
31. ágúst 2007
Höfundur:
Landvernd
Uppruni:
Landvernd
Tilvitnun:
Landvernd „Þarf að endurskoða umhverfismatið? - Landvernd“, Náttúran.is: 31. ágúst 2007 URL: http://nature.is/d/2007/08/31/arf-endursko-umhverfismat-landvernd/ [Skoðað:19. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 1. september 2007

Skilaboð: