Í fréttatilkynningu frá Landvernd kemur fram að samtökin hafa sent sveitarstjórn Ölfuss athugasemd um auglýst aðalskipulag en vilja að sérstaklega komi fram að sveitarstjórnin ætti að lýsa yfir vanhæfi sínu. Í umsögn Landverndar segir m.a.:

„Þá er rétt að koma því á framfæri að Landvernd hefur efasemdir um hæfi sveitarstjórnar til þess að fjalla frekar um málið. Sveitarfélagið hefur með samningi við Orkuveitu Reykjavíkur skuldbundið sig til þess að skipuleggja svæðið „til samræmis við þær framkvæmdir sem fyrirhugaðar eru“ svo vitnað sé til bókunar bæjarstjórnar 28. apríl 2006. Þær fyrirhuguðu framkvæmdir sem vitnað er til í bókun sveitarstjórnar, og samningi við Orkuveitu Reykjavíkur, eru m.a. þær sem tilgreindar eru í auglýsingu um breytingu á aðalskipulagi. Ekki fæst því betur séð en að sveitarstjórn hafi með samningi við Orkuveitu Reykjavíkur, og bókun sinni þann 28. apríl, afsalað sér sjálfræði til ákvörðunar í skipulagsmáli þessu. Að þessu ber sveitarstjórn að huga og eftir atvikum lýsa yfir vanhæfi sínu.“

Sjá bréf Landverndar í fullri lengd:

Sveitarfélagið Ölfus
Hafnarbergi 1
815 Þorlákshöfn

Reykjavík 13. maí 2008

 

Athugasemdir vegna áforma um skipulagsbreytingar sveitarfélagsins

Ágæta sveitarstjórn.
Landvernd gerir athugasemdir við auglýstar breytingar á skipulagi. Breytingin gerir m.a. ráð fyrir því að 285 ha opnu svæði á Bitru og Ölkelduhálsi verði breytt í iðnaðarsvæði fyrir jarðgufuvirkjun. Landvernd hefur lagst gegn áformaðri virkjun og hafa samtökin kynnt framtíðarsýn um eldfjallagarð og fólkvang frá Þingvallavatni vestur um Reykjanesskagann og út í Eldey. Sú framtíðarsýn grundvallast á samþættingu fjögurra stoða, þ.e. náttúruvernd, útivist og ferðaþjónustu auk vinnslu á jarðhita og jarðhitaefnum. Í framtíðarsýn Landverndar er lagt til að orkuvinnsla fari fyrst og fremst fram á þeim svæðum sem þegar hefur verið raskað vegna slíkrar vinnslu og nýta mætti betur. Sú skipulagsbreyting sem lögð er til af hálfu sveitarfélagsins samræmist ekki framtíðarsýn Landverndar og því leggjast samtökin gegn áformuðum breytingum á skipulaginu. Um er að ræða dýrmætt útivistarsvæði í nánasta nágrenni við helsta þéttbýli landsins sem er að hluta til á náttúruminjaskrá.

Auglýsing sveitarfélagsins sem birtust í Lögbirtingablaðinu og Morgunblaðinu 19. og 31. mars 2008 uppfyllir ekki þær kröfur sem gerðar eru í skipulags- og byggingarlögum. Ákvæði laganna hvað þetta verðar eru skýr, í 2. mgr. 18. gr. laga nr. 73/1997 hljóðar svo:

„Í auglýsingu skal tilgreina hvar tillagan er til sýnis og hve lengi og skal sá tími ekki vera skemmri en fjórar vikur. Í auglýsingu skal hverjum þeim aðila sem telur sig eiga hagsmuna að gæta gefinn kostur á að gera athugasemdir við tillöguna innan ákveðins frests sem eigi skal vera skemmri en sex vikur frá birtingu auglýsingar. Tekið skal fram hvert skila skuli athugasemdum og að hver sá sem eigi geri athugasemdir við auglýsta tillögu innan tilskilins frests teljist samþykkur henni.“

Í auglýsingu sveitarfélagsins kemur ekki fram hvert skila skuli athugasemdum og ekki er heldur greint frá því að hver sá sem ekki gerir athugasemdir við auglýsta tillögu innan tilskilins frests teljist samþykkur tillögunni.

Sökum nálægðar þessa útivistarsvæðis við þéttbýli höfuðborgarsvæðisins er um að ræða mál sem varðar með beinum hætti þorra landsmanna. Það er því brýnt að þessum stóra hópi sé samkvæmt laganna hljóðan gert ljóst, með auglýsingu, að þeir sem ekki gera athugasemdir teljist samþykkir breytingunum. Vegna þessa beinir Landvernd því til sveitarstjórnarinnar að auglýsa skipulagið að nýju og veita landsmönnum lögvarinn sex vikna frest til þess að gera athugasemdir.

Þá er rétt að koma því á framfæri að Landvernd hefur efasemdir um hæfi sveitarstjórnar til þess að fjalla frekar um málið. Sveitarfélagið hefur með samningi við Orkuveitu Reykjavíkur skuldbundið sig til þess að skipuleggja svæðið „til samræmis við þær framkvæmdir sem fyrirhugaðar eru“ svo vitnað sé til bókunar bæjarstjórnar 28. apríl 2006. Þær fyrirhuguðu framkvæmdir sem vitnað er til í bókun sveitarstjórnar, og samningi við Orkuveitu Reykjavíkur, eru m.a. þær sem tilgreindar eru í auglýsingu um breytingu á aðalskipulagi. Ekki fæst því betur séð en að sveitarstjórn hafi með samningi við Orkuveitu Reykjavíkur, og bókun sinni þann 28. apríl, afsalað sér sjálfræði til ákvörðunar í skipulagsmáli þessu. Að þessu ber sveitarstjórn að huga og eftir atvikum lýsa yfir vanhæfi sínu.

Að lokum bent á að íbúar í Hveragerði og forystumenn þess sveitarfélags hafa gert alvarlegar athugasemdir við áform um virkjun við Ölkelduháls. Koma þar inn auk áður nefndra útivistar og verndarhagsmuna lögvarða hagsmuni um loftgæði. Jafnvel þó Orkuveitu Reykjavíkur takist að hreinsa brennisteinsvetni úr útblæstri virkjananna er ljóst að á byggingartíma, meðan holur blása, verður ekki komið í veg fyrir þá mengun. Í þessu máli sem þessu væri eðlilegt verklag að vinna svæðisskipulag fyrir þau sveitarfélög sem hagsmuna eiga að gæta, sbr. 1. mgr. 15. gr. laganna.

Myndin er af ráðhúsi Ölfuss. Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir.

Birt:
13. maí 2008
Höfundur:
Landvernd
Uppruni:
Landvernd
Tilvitnun:
Landvernd „Sveitarstjórn lýsi yfir vanhæfi sínu - Landvernd“, Náttúran.is: 13. maí 2008 URL: http://nature.is/d/2008/05/13/sveitarstjorn-lysi-yfir-vanhaefi-sinu-landvernd/ [Skoðað:21. nóvember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: