Niðurstöður áhættumats fyrir fyrirhugaðar virkjanir verða kynntar íbúum Ásahrepps og Rangárþings ytra miðvikudaginn 16. apríl kl. 20:30. Fundurinn verður haldinn á Laugalandi í Holtum. Á fundinum mun Dóra Hjálmarsdóttir verkfræðingur hjá Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsen hf. fara yfir forsendur og niðurstöður áhættumatsins.

Umrædd virkjunaráform Landsvirkjunar snúast um gerð þriggja virkjana á neðri hluta Þjórsárssvæðisins. Fáir virtust hafa áhyggjur af þessum áformum fyrr en eftir að mótmæli við virkjunaráformum við Kröflu komust í hámæli. Síðan hafa mótmæli fengið mikla umfjöllun í fjölmiðlum.

Hefur Landsvirkjun í kjölfarið breytt hönnun virkjana töluvert til að koma til móts við gagnrýnisraddir. Framlagning áhættumats er ein liður í þessu ferli, en gagnrýnendur hafa m.a. bent á hættu á stíflurofi vegna jarðskjálfta.

Efst þessara þriggja virkjana og fyrst í framkvæmdaröðinni verður Hvammsvirkjunar sem verður með u.þ.b. 80 MW uppsett afl og orkugeta hennar verður um 630 GWst/ári.

Inntakslón Hvammsvirkjunar, Hagalón, verður myndað með stíflu í Þjórsá ofan við Minnanúpshólma og stíflugörðum á austurbakka árinnar. Stöðvarhús verður staðsett nærri norðurenda Skarðsfjalls í Landsveit í landi Hvamms og verður það að mestu leyti neðanjarðar.

Næst er Holtavirkjun með um 50 MW afl og orkugeta hennar verður um 390 GWst/ári. Inntakslón Holtavirkjunar, Árneslón, verður myndað með stíflu í Árneskvísl við bæinn Akbraut í Holtum og stíflugörðum í Árnesi.

Veitumannvirki verða byggð við Búðafoss ofan við Árnes og þar verður stærstum hluta Þjórsár veitt í Árneskvísl. Stöðvarhúsið verður staðsett við enda stíflunnar við Akbrautarholt, og frá því mun liggja frárennslisskurður að mestu leyti grafinn í austurkvísl Þjórsár niður fyrir Árnessporð.

Þriðja virkjunin er við Urriðafoss. Hún verður um 125 MW að afli og orkugeta virkjunarinnar verður um 930 GWst/ári. Inntakslón virkjunarinnar, Heiðarlón, verður myndað með stíflu í Þjórsá við Heiðartanga, talsvert ofan við Urriðafoss og stíflugörðum upp eftir vesturbakka árinnar.

Inntaksmannvirki verða í Heiðartanga og stöðvarhús neðanjarðar nærri Þjórsártúni. Frá stöðvarhúsinu munu liggja frárennslisgöng sem opnast út í Þjórsá nokkru neðan við Urriðafoss.

Myndin er af Urriðafoss. Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir.
Birt:
15. apríl 2008
Tilvitnun:
Viðar Þorsteinsson „Áhættumat nýrra Þjórsárvirkjana kynnt á morgun“, Náttúran.is: 15. apríl 2008 URL: http://nature.is/d/2008/04/16/ahaettumat-nyrra-thjorsarvirkjan-kynnt-morgun/ [Skoðað:19. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 16. apríl 2008
breytt: 15. apríl 2008

Skilaboð: