Skipulagsstofnun hefur tekið ákvörðun um að rannsóknaborun við Gráuhnúka, Sveitarfélaginu Ölfusi sé ekki háð mati á umhverfisáhrifum enda er hægt að lesa út úr ákvörðun Skipulagsstsofnunar að þegar sé búið að valda það miklum skaða á svæðinu að meira geri ekkert til. Fyrir stuttu úrskurðaði Skipulagsstofnun aftur á móti að tilraunaboranir við Litla Meitil þurfi að fara í umhverfismat.

Um er að ræða borun einnar allt að 3.000 m djúprar rannsóknarholu af 4.000 m² borteig og lagningu 1 km langs og 4 m breiðs aðkomuvegar frá Suðurlandsvegi að borteignum. Ekki var áður gert ráð fyrir rannsóknarholum né orkunýtingu á fyrirhuguð rannsóknarsvæði og framkvæmdin mun því kalla á enn eina breytingu á Aðalskipulagi Ölfuss 2002 – 2014 enda er aðalskipulagsbreytingin háð lögum nr. 105/2006 um umhverfismat áætlana.

Gráuhnúkar liggja sunnan og vestan við Hengilssvæðið. Á svæðinu eru mjög sérstakar móbergsmyndanir. Í ákvörðun Umhverfisstofnunar kemur enda fram að áhrif á jarðmyndanir og fornleifar séu verulegar:

Að mati Skipulagsstofnunar er ljóst að fyrirhugaðar framkvæmdir munu hafa neikvæð
áhrif á eldhraun sem fellur undir vernd skv. 37. gr. laga um náttúruvernd, miðað við legu aðkomuvegar að borteigi sem kynnt er í greinargerð Orkuveitunnar. Stofnunin telur mikilvægt að dregið verði úr eða komið í veg fyrir óafturkræft rask á hrauninu við endanlega útfærslu á legu aðkomuvegarins og leggur í því sambandi áherslu á samráð við Umhverfisstofnun og Sveitarfélagið Ölfus eins og kemur fram í tilkynningu Orkuveitunnar. Að því gefnu að vandað verði við val á endanlegri legu og frágangi vegar telur Skipulagsstofnun að ekki sé líklegt að áhrif fyrirhugaðrar framkvæmdar á hraun verði verulega neikvæð.

Það er því ljóst að Gráuhnúkaheimildin kallar á aðalsskipulagsbreytingu og heimilar rask á vernduðu svæði en þarf þó ekki í mat á umhverfisáhrifum. Það er því ekki hægt að líta öðruvísi á heimildina en svo að umhverfisáhrif séu kunn, staðfest og neikvæð en ekki að framkvæmdin hljóti blessun fyrir hvað hún sé jákvæð framkvæmd þó að fréttaflutningur sé oft á þann veg að það eina sem eftir situr í fólki er að þetta sé allt í fínu lagi og orsaki engin umhverfisspjöll.

Ákvörðun Skipulagsstofnunar má kæra til umhverfisráðherra. Kærufrestur er til 2. janúar 2008. Ákvörðun Skipulagsstofnunar má sjá í heild sinni hér.

Myndin er af tilraunaborholum í námunda við Litla Skarðsmýrarfjall á Hellisheiðinni.
Ljósmynd: Guðrún Tryggvdóttir.

Birt:
1. desember 2007
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Rannsóknarborun á Gráuhnúkum heimiluð“, Náttúran.is: 1. desember 2007 URL: http://nature.is/d/2007/12/01/rannsoknarborun-grauhnukum-heimiluo/ [Skoðað:21. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: