Frumvarp til laga um tilskipun ESB 18/2001 var afgreitt sem lög frá Alþingi í dag. Frumvarpið var fyrst lagt fram í fyrra en fékk ekki afgreiðslu fyrr en nú. 28 þingmenn samþykktu frumvarpið, 15 greiddu atkvæði gegn því, 7 sátu hjá og 13 voru fjarstaddir.

Nokkur atriða varðandi ESB 18/2001:

  • Lögin kveða á um upplýsingaskyldu yfirvalda til almennings þegar umsókn um ræktun erfðabreyttra lífvera er lögð fyrir.
  • Lögin eru mun skýrari og afmarkaðari en fyrri tilskipun.
  • Lykilhugtökin sjálfbær þróun, líffræðileg fjölbreytni og varúðarreglan fá skýrari sess.
  • Viðurkennt er að síðferðislegir og félagslegir þættir vegi jafnt þungt og vísindalegir.

Vert er að skoða gögnin og umræðuna á vef Alþingis (http://www.althingi.is/dba-bin/ferill.pl?ltg=138&mnr=516 sjá innsend erindi).

Athygli vekur að Sjálfstæðisflokkurinn greiddi atkvæði á móti á þeim forsendum að væntanleg væri samantekt um áhrif tilskipunarinnar frá Brussel og að það ætti að bíða eftir henni áður en lögin yrðu afgreidd hér á landi. Jafnvel þó að það hafi tekið 9 ár fyrir okkur íslendinga að lögfesta tilskipunina. Vert er einnig að minnast á að í umsögnum og minnisblöðum sem hafa verið send Umhverfisnefnd Alþingis má lesa, að vísindasamfélagið, með Ráðgjafanefnd um erfðabreyttar lífverur, HÍ líftækni, og Samtök Iðnaðarins í fararbroddi, hafi óskað eftir því að tilvísanir um líffræðilega fjölbreytni og varrúðarregluna yrði tekin út úr frumvarpinu.

Nú þegar búið er að innleiða tilskipun 18/2001 og svokallaður Matvælapakki var innleiddur í fyrra, eru allar forsendur fyrir hendi til að innleiða reglugerð 129/2003 um merkingu matvæla sem innihalda erfðabreyttar lífverur. Það er á höndum Jóns Bjarnasonar landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, og Jóns Gíslasonar, forstjóra Matvælastofnunar að ganga í það verk.

Mynd: Nokkrar vörur sem innihalda erfðabreyttar lífverur, Guðrún Tryggvadóttir.

Birt:
16. júní 2010
Tilvitnun:
Dominique Plédel Jónsson „Ný lög um erfðabreyttar lífverur afgreidd frá Alþingi í dag“, Náttúran.is: 16. júní 2010 URL: http://nature.is/d/2010/06/16/ny-log-um-erfdabreyttar-lifverur-afgreidd-sem-log-/ [Skoðað:22. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 18. júní 2010

Skilaboð: