Nú má setja plastumbúðir í grænu gámana
SORPA bs vill koma því á framfæri við íbúa höfuðborgarsvæðisins að nú um áramótin munu breytingar eiga sér stað á grenndargámakerfinu. Aukin tæki í flokkunarmálum gerir okkur nú kleift að endurvinna pappír og pappírsumbúðir á sama hátt. Móttökuaðili SORPU fyrir endurvinnanlegan pappír í Svíþjóð getur unnið pappírsefnið enn betur en áður hefur þekkst, flokkað það frekar og endurunnið í nýjar vörur. Í ljósi þess hefur SORPA ákveðið að auka þjónustu sína enn frekar og auðvelda fólki flokkun með því að í samnýta bláa grenndargáminn undir bæði pappír og pappírsumbúðir og taka á móti plastumbúðum í grænan grenndargám.
Plastumbúðirnar verða ýmist nýttar til orkuvinnslu eða til endurnýtingar bæði hérlendis og erlendis. Við viljum hvetja íbúa höfuðborgarsvæðsins að taka vel á móti aukinni þjónustu í flokkun og nýta sér grenndargámakerfið enn betur en áður. Grenndarstöðvar á höfuðborgarsvæðinu eru um 80 talsins og á hverri stöð eru tveir gámar. Nú er hægt að nýta ferðina enn betur og hafa með sér allar plastumbúðir og skila í græna grenndargáminn og pappír og pappírsumbúðir í bláa gáminn. Stökkbreyttir grenndargámar, grænir fyrir plastumbúðir, bláir fyrir pappír og pappírsumbúðir, þér að kostnaðarlausu og alltaf í leiðinni.
Nú er unnið er að því að tengja allar staðsetningar bláu og grænu grenndargámanna hér á Græna Íslandskortið þannig að allir eigi auðvelt með að finna grenndargáma næst sér hverju sinni. Sjá nánar um grenndargáma á vef SORPU.
Birt:
Tilvitnun:
Einar Bergmundur „Nú má setja plastumbúðir í grænu gámana“, Náttúran.is: 29. desember 2008 URL: http://nature.is/d/2008/12/29/nu-ma-setja-plastumbuoir-i-graenu-gamana/ [Skoðað:21. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.