Endalok fjármálaumhverfisins eins og við þekkjum það
Gálgahúmor á nú kannski ekki við þess dagana en ýmislegt annað hljómar óviðkunnanlega og merking peninga er að umbreytast í hugum fólks og ekki bara þar. Sumir segja að kapitalisminn hafi hreinlega runnið sitt skeið og nú verði að koma til nýtt hagkerfi, nýtt konsept. Félagasamtök og stofnanir, fyrirtæki og einstaklingar vinna nú að því að reyna að hugsa skýrt og koma með tilefni til funda eða gefa út yfirlýsingar, hvort sem er í heita pottinum eða í fjölmiðlum. Það eina sem flækir málin er að yfirlýsingar sem falla í dag verða orðnar úreltar á morgun, eða eftir fimm mínútur. Græna netið er eitt af þeim félögum sem hefur boðað til fundar á laugardaginn undir yfirsögninni „Umhverfið og kreppan - fórnir og lausnir? sem þeirri sem þetta ritar finnst vera tilvalið umræðuefni, sérstaklega þar sem nokkrir mætir menn öskra nú „álver, álver“ eins hátt og þeir geta. Eins og að risa-ríkisframkvæmdir og ný álver séu einhver töfralausn í stöðu sem þessari. Fundur Græna netsins verður haldinn í Kaffi Hljómalind þ.11. október kl. 11:00 árdegis.
Sjá nánar um fundinn hér að neðan:
Umhverfisráðherra einn málshefjenda á opnum spjallfundi um kreppuna og umhverfismálin á laugardaginn
Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra, Árni Finnsson formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands og Dofri Hermannsson varaborgarfulltrúi eru málshefjendur á spjallfundi Græna netsins um umhverfismál á krepputímum á laugardaginn kemur, 11. október. Fundurinn er haldinn á Kaffi Hljómalind á Laugavegi 23 í Reykjavík, og hefst kl. 11 árdegis.
Í yfirlýsingum ráðamanna og álitsgjafa þessa kreppudaga hefur nokkuð borið á því að nú verði að hætta þessari umhverfisvitleysu. Umhverfismál eru lúxus sem við getum ekki leyft okkur, sagði forystumaður atvinnurekenda, og kunnur viðskiptablaðamaður lagði til að lög um umhverfismat yrðu afnumin til að auðvelda framkvæmdir og nýjan vöxt.
Umhverfismál í kreppu? – er umræðuefnið á spjallfundi Græna netsins. Verður tillit til umhverfisins að víkja meðan við vinnum okkur út úr vandanum, með rússneskum olíuhreinsistöðvum og allskyns álverum? Eða á kannski þvert á móti að byrja upp á nýtt með öðruvísi hagkerfi og önnur lífsgildi? Málshefjendur eru Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra, Árni Finnsson formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands og Dofri Hermannsson varaborgarfulltrúi en fundarstjóri er Mörður Árnason íslenskufræðingur og varaþingmaður.
Allir velkomnir einsog venjulega – mætið á fróðlegan fund um málefni dagsins og takið með ykkur gesti.
Grafík: Guðrún Tryggvadóttir.
Birt:
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Endalok fjármálaumhverfisins eins og við þekkjum það“, Náttúran.is: 9. október 2008 URL: http://nature.is/d/2008/10/09/endalok-fjarmalaumhverfisins-eins-og-vio-thekkjum-/ [Skoðað:21. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.