Ný sókn í gróðursetningu trjáa í Reykjavík
„Nú er tími til að hefja nýja sókn í gróðursetningu trjáa,“ sagði Gísli Marteinn Baldursson formaður umhverfis- og samgönguráðs eftir að hafa skrifað undir samkomulag við Skógræktarfélag Reykjavíkur um gróðursetningu 460 þúsund skógarplantna.
Umhverfis- og samgöngusvið Reykjavíkurborgar og Skógræktarfélag Reykjavíkur gerðu með sér samning um gróðursetningu 460 þúsund skógarplantna í Heiðmörk, Esjuhlíðum og Úlfarsfelli. Plantað verður árin 2008, 2009 og 2010. Umhverfis- og samgöngusvið greiðir 20 milljónir fyrir plöntun árið 2008.
Gróðursetningin trjáa er eitt af Grænu skrefunum í Reykjavík og er markmiðið að fegra borgina, auka skjól og binda koltvísýring. „Við höfum átt farsælt samstarf við Skógræktarfélag Reykjavíkur og við treystum þeim til að halda áfram því mikla uppbyggingastarfi sem felst í skógræktinni,“ segir Gísli Marteinn. Á liðnu ári voru 40 þúsund tré gróðursett í Esjuhlíðum undir liðnum Græn skref í Reykjavík.
„Samningurinn hefur ómetanlegt gildi og er stærsta skrefið sem stígið hefur verið á liðnum árum til að bæta við skóglendi Reykjavíkur,“ sagði Þröstur Ólafsson formaður Skógræktarfélags Reykjavíkur.
Birt:
Tilvitnun:
Gunnar Hersveinn „Ný sókn í gróðursetningu trjáa í Reykjavík“, Náttúran.is: 10. júní 2008 URL: http://nature.is/d/2008/06/10/ny-sokn-i-grooursetningu-trjaa-i-reykjavik/ [Skoðað:22. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.