Ísaga kveður koltvísýring í kútinn
Fyrirtækið ÍSAGA ehf. framleiðir náttúrulega kolsýru CO2 úr hveravatni og selur til notkunar í iðnaði, heilbrigðisþjónustu og rannsóknum um allt land en framleiðsla fyrirtækisins annar allri landsþörfinni. Umhverfisvænleiki er margþættur með framtaki ÍSAGA; innflutningur sparast og þar með gjaldeyrir og mengun af flutningum, störf skapast innanlands, kolsýra sem annars myndi losna út í andrúmsloftið fær nýjan tilgang til iðnaðar, garðyrkju, á sjúkrahúsum og víðar.
Ísaga er dótturfyrirtæki AGA, eins af stærstu gasfyrirtækjum heims, sem framleiðir og selur gas og lofttegundir til iðnaðar og heilbrigðisþjónustu í 40 löndum í Evrópu og Ameríku og hefur yfir 10.000 starfsmenn. Á Íslandi var fyrirtækið stofnað árið 1919 til að framleiða asetylengas fyrir vita landsins. Önnur af tveimur verksmiðjum fyrirtækisins í Reykjavík vinnur 900m3/klst. af súrefni og köfnunarefni, en hin framleiðir árlega um 40 tonn af asetylgasi. Þriðja verksmiðjan er að Hæðarenda í Grímsnesi. Þar er náttúruleg kolsýra unnin úr jarðhitavatni. Enn aðrar lofttegundir, sem ÍSAGA ehf. selur eru innfluttar, eins og t.d. argon og helíum.
Myndin sýnir hvernig hrágasið er „gripið“ og komið í hylki að Hæðarenda.
Birt:
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Ísaga kveður koltvísýring í kútinn“, Náttúran.is: 20. febrúar 2009 URL: http://nature.is/d/2009/02/20/isaga-kveour-kolvetni-i-kutinn/ [Skoðað:21. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.