Gróðurskemmdir við orkuver í Svartsengi
Við orkuver Hitaveitu Suðurnesja í Svartsengi eru hraun með mosaþembu svipaðri þeirri sem er vestan við Hellisheiðarvirkjun. Orkuverið í Svartsengi stendur á Illahrauni sem talið er hafa runnið árið 1226. Hraunið er vaxið mosaþembu, aðallega mosanum hraungambra og fléttugróðri. Í þembunni vaxa ýmsar háplöntutegundir, einkum krækilyng og grasvíðir. Orkuverið í Svartsengi hefur starfað frá því um 1975 og hefur orkuvinnsla þar farið vaxandi.
Sumarið 2006 fóru fram rannsóknir og kortlagning á gróðri í nágrenni orkuversins í Svartsengi vegna rannsókna sem standa yfir á gróðurfari og verndargildi háhitasvæða landsins (Ásrún Elmarsdóttir og Olga Kolbrún Vilmundardóttir 2006). Eftir skoðun á mosaskemmdum við Hellisheiðarvirkjun voru gögnin frá Svartsengi athuguð nánar til að kanna hvort þar kæmu fram einhverjar vísbendingar um gróðurskemmdir. Gróðurkortlagningin og ljósmyndir af svæðinu við Svartsengi 2006 þóttu gefa eindregið til kynna að mosaþemba í nágrenni orkuversins hefði látið stórlega á sjá.
Mynd: Séð yfir Illahraun að fjallinu Þorbirni, orkuverið er til hægri á myndinni. Þar sem hraunið er dekkst hefur mosi farið illa. Ljósm. Olga Kolbrún Vilmundardóttir 3. ágúst, 2006.Birt:
Tilvitnun:
Náttúrufræðistofnun Íslands „Gróðurskemmdir við orkuver í Svartsengi“, Náttúran.is: Sept. 18, 2008 URL: http://nature.is/d/2008/09/18/groourskemmdir-vio-orkuver-i-svartsengi/ [Skoðað:Sept. 12, 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.