Brot úr umsögn Skipulagsstofnunar v. stækkunar Hellisheiðarvirkjunar:

5.3.2 Gróður

Í umsögnum og athugasemdum hefur komið fram að áhrif á gróður vegna fyrirhugaðra framkvæmda innan virkjunarsvæðis verði ekki veruleg. Bent hefur verið á að mikil áhrif hafi komið í ljós við útstreymi heits vatns við rannsóknarholu á Hellisheiði, grunnt undir yfirborði og útfellinga úr gufu á gróður, einkum mosa og léttur, hafi gætt á stóru svæði. Lögð er áhersla á að skýr skilyrði um umgengni um gróðurlendi verði sett í útboðsgögn. Umhverfisstofnun hefur bent á að miðað við umfjöllun í matsskýrslu sé ekki unnt að meta gagnsemi mótvægisaðgerða við lagningu hitaveituæðar um Elliðakotsmýri og er vakin athygli á þeirri stefnumörkun stjórnvalda í úrskurðum um mat á umhverfisáhrifum að endurheimta beri a.m.k. jafn mikið votlendi og raskist eða verði fyrir áhrifum. Bent hefur verið á að umfjöllun um mosa á hverasvæðum sem og fléttur í framlögðum gögnum sé áfátt og gerð er athugasemd við notkun gróðurkortalykils og gróðurkort í framlögðum gögnum Orkuveitu Reykjavíkur.

Í framlögðum gögnum Orkuveitu Reykjavíkur hefur komið fram að fylgst verði með gróðurbreytingum vegna gufuútstreymis og útbúnar svelgholur við borteiga til að lágmarka áhrif af útstreymi heits vatns á gróður í nágrenni borhola, auk þess sem allar plöntutegundir verði skráðar og sérstaklega fylgst með gróðri þar sem jarðhiti er á yfirborði. Bent er á að með því fyrirkomulagi sem fyrirhugað sé við framkvæmdir í Elliðakotsmýri muni vatnsstaða og vatnsflæði í mýrunum ekki breytast og komið verði í veg fyrir varanlega skerðingu votlendisins og því ekki talin ástæða að endurheimta votlendi annars staðar.

Fyrir liggur að heildarflatarmál gróinna svæða sem munu raskast við svo umfangsmiklar og margþættar framkvæmdir er töluvert eða 450.000 m2 . Ekki er líklegt að sjaldgæfum tegundum, gróðurfélögum eða gróðurlendum verði raskað nema votlendi í Elliðakotsmýrum, sem eru alls um 60.000 m2 að stærð og er svæði sem ný tur sérstakrar verndar skv. lögum um náttúruvernd.

Skipulagsstofnun telur að það fyrirkomulag framkvæmda við hitaveitulögn og þjónustuveg sem fram koma í framlögðum gögnum Orkuveitu Reykjavíkur og fjallað er um í kafla 4.3.2 í þessum úrskurði sé til þess fallið að vatnsstaða og vatnsflæði í mýrunum breytist ekki og að þannig verði komið í veg fyrir varanlega skerðingu á þessu víðáttumikla, samfellda mýrlendissvæði. Skipulagsstofnun telur hins vegar að ekki verði komist hjá nokkru raski sem nemur 7.500 m2 við framkvæmdir í mýrunum eins og fram kemur í framlögðum gögnum Orkuveitu Reykjavíkur. Í ljósi verndarstöðu votlendis (flóa og mýra) í náttúruverndarlögum og að teknu tilliti til þess að votlendissvæðum á Suður- og Vesturlandi hefur farið mjög fækkandi undanfarna áratugi þarf Orkuveita Reykjavíkur að endurheimta votlendi annars staðar á Suðvesturlandi til jafns við það flatarmál sem raskast í samráði við hlutaðeigandi landeigendur og sveitarfélag. Áður en framkvæmdir hefjast skal framkvæmdaraðili bera áætlun um endurheimt votlendis undir Umhverfisstofnun.

Skipulagsstofnun telur að gera megi ráð fyrir nokkrum áhrifum utan skilgreindra borteiga af útstreymi heits vatns frá borholum grunnt undir yfirborði, auk þess sem gufuútstreymi frá borholum yfir gróðurlendi getur hugsanlega spillt gróðri í nálægð holanna. Skipulagsstofnun telur að með þeim mótvægisaðgerðum og eftirliti sem fram koma í framlögðum gögnum Orkuveitu Reykjavíkur og fjallað er um í kafla 4.3.2 í þessum úrskurði megi draga úr hugsanlegum áhrifum vatns og gufu á gróður í nágrenni borhola. Þannig þarf að setja dropasíur á blástursbúnað borhola, útbúa svelgholur í jaðri borteiga, skrá plöntutegundir og fylgjast sérstaklega með gróðri þar sem jarðhiti er á yfirborði. Leitast þarf við að draga úr raski með því að staðsetja borteiga eins nærri núverandi vegum og mögulegt er og græða þarf upp raskað land þar sem það á við og taka mið af grenndargróðri í samráði við Umhverfisstofnun.

Skipulagsstofnun leggur áherslu á að ekki verði um rask að ræða utan skilgreindra vinnusvæða og að sett verði skýr skilyrði í útboðsgögn um umgengni um gróðurlendi. Skipulagsstofnun telur að þar sem meira rask verði á mosagrómu hrauni sunnan Gígahnjúka við framkvæmdir samkvæmt kosti II muni framkvæmdir samkvæmt kosti I hafa minni áhrif á gróður á svæðinu. Í ljósi ofangreinds telur stofnunin að áhrif fyrirhugaðra framkvæmda á virkjunarsvæði á Hellisheiði á gróður verði ásættanleg.

Mynd frá Ölkelduhálsi. Ljósmynd: Árni Tryggvason.

Birt:
Sept. 9, 2008
Höfundur:
Skipulagsstofnun
Uppruni:
Skipulagsstofnun
Tilvitnun:
Skipulagsstofnun „Upprifjun - Skipulagsstofnun um áhrif á gróður“, Náttúran.is: Sept. 9, 2008 URL: http://nature.is/d/2008/09/09/brot-ur-umsogn-skipulagsstofnunar/ [Skoðað:Feb. 28, 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: