Olíuhreinsunarstöð, fyrir hvern?
Bergur Sigurðsson framkvæmdastjóri Landverndar var einn af frummælendum bæði á þingi Fjórðungssambands Vestfjarða dagana 23. og 24. febrúar sl. og á spjallfundi Græna netsins laugardaginn 1. mars sl.
Bergur spyr hvort að olíuhreinsistöð sé það sem þarf til þess að viðhalda blómlegu lífi á Vestfjörðum og hvort að hún samræmist áformum um skuldbindingar og markmið Íslensku ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum? Bergur spyr ennfremur hversu mikið mengunarhættan myndi aukast við það að fá skipin inn á firði í samanburði við siglingar erlendra olíuflutningaskipa sem sigla hvort eð er framhjá landinu? Hver yrðu áhrif á ímynd og önnur tækifæri, sprotafyrirtæki og ferðaþjónustu?
Niðurstaða Bergs er sú að áform um olíuhreinsistöð samræmist engan vegin skuldbindingum og markmiðum Íslensku ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum. Jafnvel ekki þó gengið sé út frá lægstu tölu sem fram hefur komið í umræðunni, þ.e. tölu framkvæmdaaðilans sjálfs, Íslenskrar hátækni ehf., sem er 560.000 tonn.
Eins og fram hefur komið nema útreikningar Stefáns Gíslasonar byggðir á IPPC gögnum ráð fyrir milljón tonna losun eða um helmingi meiri en Íslensk hátækni. Sjá grein Stefáns um orkunotkun olíuhreinsunarstöðva.
Dofri Hermannsson benti á að mikilvægt atriði varðandi fyrirhugaða staðsetningu olíhreinsistöðvar á Vestfjörðum en það er sú staðreynd að slík stöð hefði ekkert aðdráttarafl á konur. Það skildi ekki vanmetið að án kvenna og barna væri ekki verið að blása lífi í Vestfirði heldur gelda þá og búa til hryggðarmynd sem Vestfirðingar yrðu til lengri tíma litið ekki stoltir af að hafa kallað yfir sig. Það er án efa auðveldara að koma upp stöðinni en að losna við hana ef sambúðarvandamál koma upp. Hagsmunir slíkrar stöðvar yrðu án efa hagsmunum fólksins yfirsterkari og ekki spurning um hver þyrfti að flytja burt komi til erja.
Birt:
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Olíuhreinsunarstöð, fyrir hvern?“, Náttúran.is: 3. mars 2008 URL: http://nature.is/d/2008/03/03/olihreinsunarstoo-fyrir-hvern/ [Skoðað:21. nóvember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.