Á sama tíma og vitundarvakning á sér stað víða um heim gegn erfðabreyttum lífverum (GMO's) erum við Íslendingar á bestu leið með að gefa óskabarni þjóðarinnar ORF Líftækni hf. leyfi til að fara út með ræktun á erfðabreyttu byggi, en fyrirtækið hefur nú um nokkurra ára skeið stundað ræktun erftðabreytts byggs til framleiðslu lífvirkum prótínum fyrir lyfjaiðnaðinnn, síðan í fyrra í svokallaðri „Grænni smiðju“ í gróðurhúsum við Grindavík. Fyrir stuttu siðan tóku t.a.m. umhverfisráðherrar í Evrópusambandinu höndum saman í baráttunni gegn erfðabreyttum lífverum (sjá grein).

Umhverfisstofnun boðar til opins fundar um fyrirhugaða útiræktun á erfðabreyttu byggi ORF Líftækni en um stóra ákvörðun er að ræða þar sem sleppingar erfðabreyttra lífvera geta haft afdrifaríka óafturkræfa keðjuverkun í för með sér sem ekki eru að fullu skiljanlegar manninum. Fundurinn verður haldinn í Frægarði, fundarsal Landgræðslu Ríkisins í Gunnarsholti, þriðjudaginn 26. maí n.k. kl. 13:30 og eru allir sem sjá sér fært að mæta og hliða á kynningar og tjá skoðun sína hvattir til að mæta.

Ráðgjafarnefnd um erfðabreyttar lífverur var skipuð af umhverfisráðherra í byrjun árs en nefndin klofnaði í afstöðu sinni gagnvart umsókn ORF Líftækni en afgreiddi málið á þann veg að meirihlutinn „mælir með því við Umhverfisstofnun að Orf líftækni verði veitt fimm ára leyfi til tilraunaræktunar á erfðabreyttu byggi sem inniheldur fjögur mismunandi græðisprótín en nefndin fer fram á að grenndarkynning fari fram og ráðgjafanefndin fái árlega skýrslu um framgang tilraunarinnar frá óháðum aðiia á vegum Umhverfisstofnunar.

Gunnar Á. Gunnarsson, framkvæmdastjóri Vottunarstofunnar Túns og einn nefndarmanna skilaði minnihlutaáliti þar sem hann varar eindregið við því að leyfi verð veitt til sleppingar erfðabreyttra lífvera í íslenska náttúru, „enda stafi megin áhætta samfara erfðabreyttum lífverum í óvæntum áhrifum sem erfðabreytingaferlið sjálft valdi“. 

Í minnihlutaáliti nefndarmannsins  Jóns Á. Kalmannssonar kemur einnig fram að hann treysti sér heldur ekki til að mæla með því að ORF Líftækni, né nokkur annar, fái leyfi til tilraunaræktunar á erfðabreyttu byggi utanhúss „enda vitum við ekkert um áhrif þess á komandi kynslóðir að stíga slíkt skref“ auk þess sem Jóni virðist sem „fólk kæri sig því miður oftast kollótt um það“.

Í frétt á vef Umhverfisstofnunar segir:

Varðandi málsmeðferð leyfisveitinga um notkun og sleppingar erfðabreyttra lífvera er vísað til laga nr.18/1996 um erfðabreyttar lífverur og rgl. nr. 493/1997 um sleppingu eða dreifingu og markaðssetningu erfðabreyttra lífvera. Lögbundnir umsagnaraðilar varðandi leyfi til útiræktunar erfðabreyttra lífvera eru Náttúrufræðistofnun Íslands og Ráðgjafarnefnd um erfðabreyttar lífverur.

Umhverfisstofnun hefur haft til meðferðar umsókn fyrirtækisins ORF Líftækni hf. varðandi leyfi til útiræktunar á erfðabreyttu byggi. Umhverfisstofnun vill gefa almenningi og hagsmunaaðilum tækifæri til að kynna sér tilgreind áform um útiræktun og að neðan eru birt helstu gögn er verða lögð til grundvallar við ákvörðun um leyfisveitingu að hálfu Umhverfisstofnunar.

Einnig er boðað til opins fundar í Frægarði, fundarsal Landgræðslu Ríkisins í Gunnarsholti, þriðjudaginn þann 26. maí n.k. og hefst fundurinn kl. 13:30. Á fundinum mun fulltrúi stofnunarinnar fara yfir helstu mál er varða forsendur slíkra leyfisveitinga en á fundinum mun fulltrúi ORF Líftækni kynna starfsemi fyrirtækisins auk þess sem fulltrúar Náttúrufræðistofnunar Íslands og Ráðgjafarnefndar um erfðabreyttar lífverur munu kynna framkomnar umsagnir um fyrirhuguð áform fyrirtækisins um útiræktun. Áhugasamir aðilar eru hvattir til að kynna sér gögn sem fylgja að neðan en vert er að geta þess að vegna viðskiptahagsmunna umsækjanda er strikað yfir trúnaðarupplýsingar í umræddum gögnum. Frestur til að skila inn athugasemdum er til 28. maí n.k. og skulu þær berast skriflega til Umhverfisstofnunar Suðurlandsbraut 24, 108 Reykjavík.

Útdráttur úr umsókn ORF Líftækni,
Umsögn Náttúrufræðistofnunar Íslands
,
Umsögn Ráðgjafarnefndar um erfðabreyttar lífverur ásamt sérálitum
,
Sjá vefinn erfdabreytt.net

Birt:
21. maí 2009
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Mun Umhverfisstofnun veita leyfi til ræktunar á erfðabreyttu byggi utanhúss?“, Náttúran.is: 21. maí 2009 URL: http://nature.is/d/2009/05/21/mun-umhverfisstofnun-veita-leyfi-til-ao-raektunar-/ [Skoðað:21. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 22. maí 2009

Skilaboð: