Breska dagblaðið Guardian hefur greint frá niðurstöðum skýrslu SÞ sem lekið var á miðvikudag. Í henni kemur fram að magn gróðurhúsalofttegunda sem losað er vegna skipasamgangna er þrefalt meira en áður var talið.

Í skýrslunni er talið að árleg losun frá flutningaskipum nemi um 1,12 milljörðum tonna af koltvísýringi, eða um 4,5% af allri kolefnislosun heims. Skýrslan gefur til kynna að skipaflutningar – sem standa utan samdráttarmarkmiða Evrópusambandsins – muni bætast í hóp stærstu einstöku losunarvaldanna, og fylgi á hæla bifreiða, fasteignareksturs, landbúnaðar og iðnaðar.

Guardian nefnir til samanburðar að flugsamgöngur, sem hafa sætt miklum þrýstingi að draga úr losun, séu ábyrgar fyrir um 650 milljónum tonna kolefnislosunar, en það er rétt rúmur helmingur þess sem skipasamgöngur losa. Vísindanefnd Sameinuðu þjóðanna, sem er ábyrg fyrir upplýsingaöflun vegna loftslagsmála, hefur hingað til talið þessa losun mun minni, eða í mesta lagi um 400 milljónir tonna.

Bættar aðferðir eru notaðar í nýju skýrslunni, þar á meðal gögn sem safnað var í gegnum Alþjóða siglingamálastofnunina (IMO), stofnun SÞ sem ætlað er að hafa eftirlit með mengun skipa. Ekki er þó nóg með að nýjar tölur varpi ljós á vanda sem er stærri en áður var ætlað, heldur kemur einnig fram í skýrslunni að losunin eigi eftir að vaxa um 30% fyrir árið 2020.

Kerfið hefur brugðist

Dr. Rajenda Pachauri, forseti Vísindanefndar SÞ, sagði aðspurður um málið: „Hér hefur kerfið bersýnilega brugðist. Skipaiðnaðurinn hefur hingað til forðast kastljósið. Hann hefur staðið utan umræðunnar um loftslagsbreytingar.“ Hann sagðist vonast til að losun vegna sjóflutninga verði tekin með í næsta loftslagssamkomulagi, og lýsti því yfir að annað væru undanbrögð.

Niðurstöðurnar eru, að sögn Guardian, afar vandræðalegar fyrir löndin sem fjármögnuðu gerð skýrslunnar, en ríkisstjórnar þeirra hafa sjálfar gert lítið úr loftslagsáhrifum sjóflutninga. Því hefur verið lýst yfir á vettvangi Evrópusambandsins að losun vegna skipasamgangna væri innan við 2% af heimslosun.

Búist er við auknum þrýstingi á skipaeigendur að skipta yfir í loftslagsvænna eldsneyti, sem og á Evrópusambandið að taka iðnaðinn inn í niðurskurðaráætlun sína, en drög hennar voru kynnt í janúar. Þar var tekið á flugsamgöngum en ekki sjósamgöngum.

Intertanko, samtök stærstu sjófraktfyrirtækja heims, tóku þátt í að afla gagna fyrir rannsóknina. Peter Smith, framkvæmdastjóri samtakanna, sagði eldsneytisnýtingu skipaflota heimsins fara sífellt batnandi. „Eldsneytislítrinn á stóru, nútímalegu fraktskipi flytur hvert tonn af fragt meira en 2.800 kílómetra, sem er meira en tvisvar sinnum meira en fyrir 20 árum,“ sagði hann.

Mynd: Viðskitpablaðið. Myndtexti: Forsvarsmenn fyrirtækja í sjóflutningum benda á að eldsneytisný tni í geiranum hafi tvöfaldast á síðustu 20 árum. Skýrsla SÞ minnkar engu að síður líkur á að skipaflutningar verði áfram utan niðurskurðarmarkmiða Evrópusambandsins.

Birt:
17. febrúar 2008
Tilvitnun:
Viðar Þorsteinsson „Hulunni svipt af kolefnislosun skipaflutninga“, Náttúran.is: 17. febrúar 2008 URL: http://nature.is/d/2008/02/17/hulunni-svipt-af-kolefnislosun-skipaflutninga/ [Skoðað:22. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 18. febrúar 2008

Skilaboð: