Um síðustu helgi var 10. landsráðstefna Staðardagskrár 21 haldin að Hótel Örk í Hveragerði. Yfirskrift ráðstefnunnar var „Sjálfbær þróun, betri heilsa og ný störf“. Á fyrri degi ráðstefnunnar var fjallað um tengsl umhverfis og heilsu út frá ýmsum sjónarhornum. Niðurstöður úr könnunum sem og reynsla af útikennslu og öðru samneyti manneskjunnar við óskpillta náttúru, sýna ótvírætt fram á mikilvægi þess að stunda útivist og ekki sþst fram á það að einstaklingurinn verði að fá tækifæri til að eiga einræður við náttúruna á sínum eigin forsendum eigi hann að halda góðri heilsu, bæði andlegri og líkamlegri.

Verkefni eins og Hálendishópurinn, sem Haraldur Sigurðsson hópstjóri kynnti, sýnir svo ekki verður um villst að ungmenni sem lent hafa utangarðs í þjóðfélaginu þurfi að fá tækifæri til að horfast í augu við sig sjálf á forsendum náttúrunnar og í samneyti við hana. Hálendishópurinn er dæmi um úrræði sem eru svo einföld en samt svo lítið notuð enn sem komið er. Níu ungmenni fá tækifæri til að fara í slíka ferð árlega, með meðferðaraðilum og stuðningskerf á bak við sigi, en er hér ekki komið efni í góða viðskiptahugmynd á sviði ferðamennsku?

Það virðist borðleggjandi að bjóða nágrannalöndum okkar að senda til okkar ungmenni í vanda þar sem þau yrðu síðan leidd upp á hálendið til að kynnast sjálfum sér. Í raun þarf ekki ungmenni í vanda til enda getur hver sem er kynnst sjálfum sér uppá nýtt og bókað ferð til Íslands með það að markmiði.

Martha Ernsdóttir hlaupari og sjúkraþjálfi á Kleppi rakti reynslu sína af því að vinna með sjúklingum í náttúrunni en sögubrot og lýsingar hennar af árangri starfsins var stórkostlegt á að hlýða. Hún tók ráðstefnugesti í hugleiðslu út við lygnt vatn í sólarlagi, reynsla sem að snart alla gesti ráðstefnunnar djúpt. Martha minnti okkur á að við erum hluti af náttúrunni og samneytið við hana er okkur eins mikilvægt og að anda. Nútíminn hefur króað okkur af í viðjum hugans, í borgum og inni á skrifstofum þar sem að við koðnum niður ef að við pössum okkur ekki á því að komast út í náttúruna reglulega.

Einn fyrirlesari ráðstefnunnar var Espen Koksvik frá norska umhverfisráðuneytinu, en hann fjallaði um norsk og norræn verkefni og rannsóknir á mikilvægi útivistar fyrir andlega heilsu og voru niðurstöður þeirra allar á þann vega að án náttúrunnar sé ekki hægt að vera heilbrigður.

Síðari daginn var leitað svara við spurningunni „Hvernig getur sjálfbær þróun skapað ný störf“. Þorsteinn I. Sigfússon framkvæmdastjóri Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands leiddi ráðstefnugesti til „Sjálfbæjar í Þróunarfirði“ og dró upp mynd af sjálfbæru, vistænu draumasamfélagi sem að við höfum í raun nægar forsendur til að gera að veruleika ef stefnan verður mörkuð í þá átt. Ferðalag Þorsteins var skemmtilegur inngangur að upplýsandi kynningu á starfsemi Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands og því leiðandi hlutverki sem stofnunin hefur varðandi sjálfbær atvinnutækifæri.

Árni Jósteinsson verkefnisstjóri hjá Bændasamtökum Íslands upplýsti ráðstefnugesti um stöðuna frá sjónarhorni samtakanna sem eru að hans sögn í naflaskoðun til að finna leiðir sem eru í takt við sjálfbæra þróun. Verkefni eins og Beint frá býli og Lifandi landbúnaður hafa það markmið að byggja stoðir undir ferskar hugmyndir á sviði vöruþróunar með náttúruafurðir. Nokkur gagnrýni kom fram hjá ráðstefnugestum varðandi skort á jákvæðri stefnu Bændasamtakanna varðandi lífrænan landbúnað sem er heldur að dragast saman en hitt en Árni svaraði því til að Bændasamtökin séu að vakna til vitundar um það að lífrænan búskap þurfi að efla og að það sé raunverulega á teikniborði að efla lífrænan landbúnað.

Nokkur ný sveitarfélög undirrituðu Ólafsvíkuryfirlýsinguna með ráðherra og bættust þannig í hóp þeirra sem fyrir eru. Sjá hvaða sveitarfélög á íslandi eru aðilar að Staðardagskrár 21. Frá síðustu landsráðstefnu Staðardagskrár 21 hafa bæst við eftirtalin sveitarfélög: Vesturbyggð, Hvalfjarðarsveit, Kjósarhreppur, Sveitarfélagið Garður, Seyðisfjarðarkaupstaður, Bolungarvíkurkaupstaður, Borgarbyggð, Blönduóssbær, Bláskógabyggð, Hrunamannahreppur og Fljótsdalshéra. Þar með hafa 51 sveitarfélög samþykkt yfirlýsinguna, en í þeirri tölu eru reyndar nokkur sveitarfélög sem hafa síðar sameinast öðrum. Reyndar ætti talan að vera 52, því að sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps bættist í hópinn þann 5. feb. sl.

Sjá frétt um dagskrá ráðstefnunnar.

Efri myndin sýnir umhverfisráðherra Þórunni Sveinbjarnardóttur undirrita Ólafsvíkuryfirlýsinguna með fulltrúum nýrra aðildarsveitarfélaga. Henni til hægri handar (t.v.á myndinni) er Freyr Ævarsson, umhverfisfulltrúi Fljótsdalshéraðs en henni til vinstri handar situr Margeir Ingólfsson, oddviti Bláskógabyggðar. Neðri myndir er af Jakobi Frímanni Þorsteinssyni, aðjúnkt við KHÍ að skýra fagsvið útináms.

Hér má nálgast allar glærur frá ráðstefnunni.

Ljósmyndir: Guðrún Tryggvadóttir.

Birt:
11. febrúar 2008
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Náttúran, heilsan og sjálfbær þróun“, Náttúran.is: 11. febrúar 2008 URL: http://nature.is/d/2008/02/11/natturan-heilsan-og-sjalfbaer-throun/ [Skoðað:21. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 13. febrúar 2008

Skilaboð: