UST hefur framlengt frest til þess að gera athugasemdir við auglýst starfsleyfi Norðuráls í Helguvík en lögboðin restur rann út þann 13. ágúst. Umhverfisstofnun mun taka við athugasemdum fram yfir helgi. Landvernd hefur gert athugasemdir og má nálgast bréf Landverndar til Umhverfistofnunar á vef Landverndar.

Ótímabær útgáfa starfsleyfis gæti ógnað stöðu Íslands á alþjóðlegum vettvangi
Landvernd telur útgáfu starfsleyfis fyrir álver í Helguvík með öllu ótímabæra og enda myndi útgáfa á þessum tímapunkti brjóta gegn rannsóknarreglu stjórsýslulaga. Við blasir að erfitt gæti reynst að uppfylla almennar skuldbindingar Íslands um að takmarka aukningu í losun gróðurhúsalofttegunda við 10% og því óvíst er hvort svigrúm sé til aukinnar PFC losunar frá nýjum álverum á yfirstandandi samningstímabili, 2008-2012.

PFC losun fellur undir almennar losunarheimildir Íslands samkvæmt Kýótó-bókuninni en ekki undir hið svokallaða íslenska ákvæði. Einn sá þáttur sem hvað helst ógnar stöðu Íslands í þessu samhengi er einmitt hömlulaus PFC losun frá álveri Norðuráls á Grundartanga.

Umhverfisstofnun hefur enn ekki lokið við gerð nýrrar losuarspár sem umhverfisráðherra óskaði eftir fyrr á árinu, sbr. frétt á vef Landverndar
, en ný spá myndi varpa skýrara ljósi á stöðuna og draga úr óvissu um hvort svigrúm sé til aukinnar losunar innan almennra skuldbindinga Íslands. Samkvæmt rannsóknarreglu stjórnsýslulaga ber stjórnvaldi að sjá til þess að „mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því“. Þar til Umhverfisstofnun hefur útbúið nýja losunarspá verður því ekki haldið því fram kynnroðalaust að málið „sé nægjanlega upplýst“ – sbr. rannsóknarreglu stjórnsýslulaga – enda ríkir að svo komnu máli óvissa um stöðu Íslands m.t.t. alþjóðlegra skuldbindinga.

Óvissa um grundvallarþætti:

Mikil óvissa ríkir um grundvallarþætti fyrirhugaðrar starfsemi Norðuráls. Ekki liggur fyrir hvort eða hvaðan orka fáist í álverið og mikil ósætti eru á meðal íbúa og landeigenda um fyrirkomulag á orkuflutningum. Horft er til þess að virkja á fjórum áður lítt röskum svæðum, þ.e. Trölladyngju, Sandfelli, Seltún og Austurengjum sem öll eru í löndum annarra sveitarfélaga en Reykjanesbæjar og Garðs sem njóta munu tekna af álverinu. Háhitasvæðin fjögur eru dýrmæt út frá sjónarmiðum ferðaþónustu, náttúruverndar og útivistar og eiga rökin sem Skipulagsstofnun notaði gegn Bitruvirkjun ágætlega við um þessi svæði. Þar sem umhverfismat hefur ekki farið fram ríkir algjör óvissa um áhrif þessara virkjana. Landvernd mun beita sér fyrir því að þessi orkuöflun og orkuflutningar um Reykjanesskagan verði metnir með heildstæðum hætti enda segir í úrskurði ráðherra vegna kröfu Landverndar um heildstætt mat fyrir álver í Helguvík:

„Í þessu sambandi skal þó áréttað að niðurstaða þessi felur ekki í sér afstöðu ráðuneytisins til þess hvort 2. mgr. 5. gr. kunni síðar að geta komið til álita vegna annarra matsskyldra framkvæmda álverinu í Helguvík tengdum.“

Ákvæði um vöktun á flúoríðum í gróðri vantar:
Í auglýstu leyfi er ekki gert ráð fyrir vöktun á magni flúors á beitarsvæðum hrossa en samkvæmt áliti Skipulagsstofnunar ætti að vakta flúor í gróðri á beitarsvæðum hrossa. Gefi niðurstöður slíkrar vöktunar tilefni til gæti þurft að kanna hvort flúoráhrif finnist hjá hrossum. Þessi atriði úr áliti Skipulagsstofnunar hafa ekki ratað inn í starfsleyfisdrögin og hefur Landvernd hefur beint því til Umhverfisstofnunar bæta inn ákvæði um vöktun á flúoríðum í gróðri.

Að lokum:
Landvernd telur rétt, m.v.í. rannsóknarreglu stjórnsýslulaga og þá óvissuþætti sem taldir eru upp hér að ofan: Umhverfisstofnun ljúki við gerð losunarspár og gefi ekki út starfsleyfi til nýrra álvera nema losunarspáin sýni að svigrúm sé til starfseminnar. Jafnframt þarf að liggja fyrir heildstætt mat á umhverfisáhrifum fyrir orkuöflun og orkuflutninga áður en leyfisveitendur geta tekið upplýsta ákvörðun um útgáfu leyfa. Útgáfa starfsleyfis áður en þesar upplýsingar liggja fyrir myndi ekki bera Umhverfistofnunin vott um vönduð vinnubrögð enda vandséð að rannsóknarregla stjórnsýslulaga hefði þa verið uppfyllt. Starfsleyfi Umhverfisstofnunar eru kæranleg til umhverfisráðherra sem kveður upp loka úrskurð.
Birt:
22. ágúst 2008
Höfundur:
Landvernd
Uppruni:
Landvernd
Tilvitnun:
Landvernd „Ótímabært starfsleyfi Norðuráls er í burðarliðnum“, Náttúran.is: 22. ágúst 2008 URL: http://nature.is/d/2008/08/22/otimabaert-starfsleyfi-norourals-er-i-buroarlionum/ [Skoðað:21. nóvember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: