Græn bílnúmer
Undirrituðum flaug í hug í dag leið til að hvetja til notkunar á minna skaðlegum ökutækjum. Það eru græn númer á ökutæki. Svipuð og gulu númerin á vinnutækjum sem mega nota litað dísel. Græn merki fengju þá ökutæki sem með einhverjum hætti eru framleidd eða breytt til að stuðla að minni losun gróðurhúsalofttegunda. Þannig væri greinilegt í umferðinni hverjir eru vænir og ækju um á vænum ökutækjum. Hér er semsagt einnig stungið upp á að nota orðið vænt um þau ökutæki sem framleidd eru eða er breytt til hins betra í umhverfismálum. Númerin gætu þá verið væn númer en með grænum lit. Ljósgrænum til aðgreiningar frá númerum diplómata sem eru nú í umferð.
Hvort þessi númer fylgdu einhverjum mögulegum skatta eða gjalda ívilnunum af hálfu hins opinbera er öðrum látið eftir að útfæra nákvæmlega en ljóst er að "ný i stíllinn" þarf að vera vænni og grænni þó bílar verði seint taldir umhverfisvinalegir.
Þessa dagana situr starfshópur á vegum Fjármála-, Samgöngu- og Umhverfisráðuneyta að störfum og kallar til sín fulltrúa fyrirtækja, stofnana og samtaka til ráðuneytis í mótun nýrra laga um skattamál tengd minni útblæstri gróðurhúsalofttegunda og sjálfbærara eldsneyti. Það er óskandi að hópnum takist að mynda ramma laga og reglugerða sem geti með skilvirkum og hraðvirkum hætti beint íslenskri bílamenningu til betri vegar á betri vegum.
Grafík: Tveir vænir, Guðrún Tryggvadóttir.
Birt:
Tilvitnun:
Einar Bergmundur „Græn bílnúmer“, Náttúran.is: 28. nóvember 2007 URL: http://nature.is/d/2007/11/28/graen-bilnumer/ [Skoðað:21. nóvember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.