Náttúrumarkaðarinn vex stöðugt enda er markmiðið að vera tengiliður milli neytenda og söluaðila sem stunda vistvæn og umhverfismeðvituð viðskipti og byggja upp óháð markaðstorg til að auka veg umhverfisvænna viðskipta.

Í dag kom Móðir Jörð ehf fyrirtæki Eymundar Magnússonar bónda í Vallanesi í Fljótsdalshéraði inn á Náttúrumarkaðinn. Eymundur er sannkalluður frumkvöðull og hefur um tugi ára stundað lífrænan búskap. Ákafur áhugi á lífrænni ræktun, vöruþróun lífrænna afurða „og góður skammtur af þolinmæði“ hafa fleytt Eymundi í gegnum langt þróunarferli sem ekki hefur alltaf verið verðlaunað eins og sáð var til. Undir vörumerkinu Móðir Jörð er nú framleitt ferskt grænmeti í miklu úrvali, tilbúnir réttir (kælivörur), kornafurðir og olíur. Með auknum áhuga á lífrænt vottuðum vörum hefur áhuginn á afurðum Vallanessbóndans einnig tekið kipp.

Náttúrumarkaðurinn býður nú til sölu tvær kornvörur frá Móður Jörð þ.e. lífrænt byggmjöl og bankabygg sem Eymundur kallar „hrísgrjón norðursins“. Lífrænar olíur Móður Jarðar eru einnig komnar inn á markaðinn. Það eru: Lífolía , Birkiolía og Blágresisolía.

Myndin er af Eymundi við bygguppskeru. Sjá vef hans organic-products.com.
Birt:
3. ágúst 2007
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Lífrænt bygg og olíur á Náttúrumarkaði“, Náttúran.is: 3. ágúst 2007 URL: http://nature.is/d/2007/08/03/lfrnt-bygg-og-olur-nttrumarkai/ [Skoðað:21. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 26. janúar 2008

Skilaboð: