Í gær, jóladag, hlómaði frétt í ríkisútvarpinu þess efnis að nokkrir prestar telji að góða kirkjusókn í aftansöng á aðfangadagskvöld megi rekja til aukinnar og nú á siðustu vikum heitrar umræðu um stöðu kristinnar trúar innan samfélagsins og þá sérstaklega innan skóla landsins. Þessi yfirlýsing minnir helst á yfirlýsingar stjórnmálaflokka sem að berjast fyrir auknu fylgi og byggja ekki á neinu nema því sem þeir sjálfir vilja að um þá sé hugsað. Ekki er vitað til þess að kirkjugestir hafi fengið tækifæri til að útskýra kirkjugöngu sína á þessu heilaga kvöldi og engin marktæk skoðanakönnun liggur að baki þessari frétt, aðeins ummæli eða tilfinning tveggja nefndra presta, þeirra Jóns Dalbús Hróbjartssonar og Arnar Bárðarsonar.

Ástæðuna gæti þó rétt eins verið að rekja til dýrtíðar, hærri vaxta og greiðsluerfiðleika eða hræðslu fólks við yfirvofandi vá vegna hlýnunar jarðar. Já einmitt, ástæðuna gæti allt eins verið að rekja til ógnandi veðurfarsbreytinga og framtíðarsýnar vísindamanna um áhrif hlýnunarinnar og vaxandi meðvitundar og ábyrgðartilfinningar fólks gagnvart því sem er að gerast í heiminum.

En það væri einnig spámennska að halda því fram að hugsanlega ný vöknuðu umhverfisvitund hafi haft áhrif á kirkjusókn á aðfangadag. Hefði ég verið spurð, hefði ég getað svarað því til og þannig kynt undir sjónarmiðum umhverfisverndar. En enginn hringdi til að spyrja mig.

Sjá fréttina sem rætt er um á vef RUV.

Mynd: Krikjur eftir Pál Garðarson.
Birt:
26. desember 2007
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Plott eða frétt?“, Náttúran.is: 26. desember 2007 URL: http://nature.is/d/2007/12/25/plott-eoa-frett/ [Skoðað:21. nóvember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 25. desember 2007
breytt: 26. desember 2007

Skilaboð: