Kaffi Hvönn er nýtt kaffihús starfrækt við Norræna húsið í Reykjavík en kaffihúsið opnaði á þjóðhátíðardaginn þ. 17. júní sl. Í gróðurhúsinu er hægt að tilla sér niður og njóta stórkostlegs útsýnis yfir mýrina og þar er hlýtt sama hvernig viðrar!

Umhverfis Kaffi Hvönn er matjurtargarður sem settur hefur verið upp sem eldhúsgarður fyrir Norræna húsið en val jurta í garðinn var á höndum Ingólfs Guðnasonar, kenndan við Engi*, en hann er lífrænn garðyrkjubóndi og einn mesti grasnytja-kunnáttumaður landsins. Ingólfur á einnig heiðurinn af því að koma upp „urtagarðinum“ í Skálholti á sínum tíma en val á plöntum í hann byggði hann á heimildum þeim sem til eru um ræktun í Skálholti á fyrri öldum.

Stofnun Kaffi Hvannar, nýtt veitingahús Dill í fyrrum kaffihúsi Norræna hússins og eldhúsgarður Norræna hússins eru í fullu samræmi við þá stefnu Norræna hússins að hvetja til sjálfbærra lifnaðarhátta, lífrænnar ræktunar og notkunar matar úr heimabyggð og er inntak stefnu Ný norrænnar matargerðar sem Norræna húsið styður við á ýmsa vegu.

Á skilti í garðinum stendur:

Eldhúsgarður Norræna hússins

Í garðinum gefur að líta úrval nytjaplanta sem Íslendingar hafa nýtt í gegnum aldirnar. Hvort sem jurtirnar hafa verið nýttar villtar eða ræktaðar, segja þær okkur merka sögu íslenska nytjagarðsins.
Áhugi á sögu nytjajurta og áhrif þeirra á menningu Norðurlanda hefur á undanförnum árum farið vaxandi. Hefðir í landbúnaði, garðyrkju og matseld gefa okkur áhugaverða sýn á menningarsöguna. Uppruni og saga nytjajurta gegna mikilvægu hlutverki í Ný norrænum mat og hvernig við skilgreinum hvað er norrænt.

Með garðinum getum við varðveitt menningarsögu elhúsgarðsins á lifandi hátt, gestum og gangandi til yndisauka.
Veitingastaðurinn Dill ný tir sér uppskeruna af garðinum í sinn matseld og því má með sanni segja að þetta sé eldhúsgarður Norræna hússin.

Garðurinn er unnin í samvinnu við Norræna genabankann (NordGen), Grasagarðinn í Reykjavík og Erfðalindasetur Landbúnaðarháskóla Íslands.
Ráðgjafi: Ingólfur Guðnason.
Garðurinn er teiknaður af Dagnýju Bjarnadóttur og var unnin vorið 2009 af Garðvélum.

*Sjá Garðyrkjustöðina Engi - Grasnytjar ehf. hér á Grænum síðum.

Birt:
27. júlí 2009
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Gróður „kafii“hús - Kaffi Hvönn við Norræna húsið“, Náttúran.is: 27. júlí 2009 URL: http://nature.is/d/2009/07/27/groour-kafiihus-kaffi-hvonn-vio-norraena-husio/ [Skoðað:21. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: