Uppskera og handverk 2007
Dagana 10.-12. ágúst 2007 verður haldin hátíð sem á sér nú 15 ára langa sögu en það er Handverkshátíð á Hrafnagili. Fáir viðburður eiga sér jafnlangan feril.
Í fyrra tók sýningin sem þá hét “Uppskera og handverk 2006” heilmiklum breytingum og vakti það mjög jákvæða athygli. Hún varð að skemmtilegri blöndu handverks- og fjölskylduhátíðar þar sem allir fundu eitthvað við sitt hæfi. Sýningarsvæðið tvöfaldaðist og dæmi voru um að gestir komu alla daga hátíðarinnar því eitthvað nýtt var að gerast dag hvern. Mjög gott samstarf var haft við Fiskidaginn mikla sem er einmitt haldinn sömu helgi ár hvert.
Nú verður gengið skrefinu lengra og ýmsar nýjungar þróaðar enn frekar. Mikilvægt er að byggja upp sölusýningu á listmunum á landsbyggðinni, skapa gott orðspor og höfða til allra þeirra innlendu og erlendu ferðamanna sem eru á faraldsfæti þessa helgi á Norðurlandi. Svo vel eigi að vera þarf virka þátttöku fólks á sviði lista, gæðahandverks og hönnunar. Því hefur verið skipuð sérstök valnefnd sem leggur mat á umsóknir og velur þátttakendur inn á hvert svæði fyrir sig. Valnefndina skipa : Anna Gunnarsdóttir, Guðmundur Ármann Sigurjónsson, Sigríður Örvarsdóttir og George Hollanders.
Nýjungar:
- Svokallað verksvæði vakti gífurlega athygli í fyrra og mikið af verkum voru unnin á hátíðinni. Meðal annars var 500 kílóa risi í smíðum, rafmagnsgítar í stærðinni 4 metrar, rennismiðir að störfum, vinnsla á hornum, leirlistarkona, vefnaður, hnífasmíði og fleira og fleira. Verksvæðið verður ekki minna fjölbreytt í ár. Stór verk í smíðum og fjölbreytt vinna með alls kyns hráefni. Að minnsta kosti eitt stórt verk er í burðarliðnum og verður kynnt síðar.
- Krambúð var rekin af hálfu sýningarinnar þar sem aðilar sendu listmuni sína í sérstaka listmunabúð á aðalsýningarsvæðinu. Mikil ánægja var með þetta og fjöldi listamanna sendu muni sína. Umsjónaraðili að þessu sinni er Sigríður Örvarsdóttir textílhönnuður og sér hún um uppsetningu og val á munum inn í Krambúðina. Aðilar í handverki og listiðnaði hvers konar getur sótt um að selja muni sína í Krambúðinni.
- Handverksmaður ársins var valinn í fyrsta skipti á hátíðinni 2006. Ragnhildur Magnúsdóttir í Gþgjarhólskoti eða Ranka í Kotinu var valin handverksmaður ársins 2006. Spennandi verður að sjá hver verður fyrir valinu fyrir árið 2007.
- Sölubás ársins var valinn á hátíðinni 2006. Himneskir herskarar sköruðu framúr við val og hlaut titilinn sölubás ársins 2006.
- Frændur okkar Norðmenn – Frá Noregi kemur 20 manna hópur listamanna frá Sommerakademiet í Vestur-Noregi sem mun vinna að verkum sínum á hátíðinni ásamt því að sýna og selja vörur sínar. Óhætt er að segja að mikill fengur er í hóp sem þessum sem kemur með ferska strauma frá Noregi sem byggja á gamalli hefð. Framúrstefnu handverk. Hópurinn verður kynntur sérstaklega síðar.
- Uppskeruhluti – Landssýning landnámshæsna var haldin á hátíðinni í fyrra en þar völdu gestir fallegustu fuglana. Vélaumboð með traktora og vélar heilluðu. Nú er einnig leitað að aðilum sem framleiða alíslenska gæðavörur, sérstaklega þeir sem eru í heimaunnum afurðum. Stjórnendur hátíðarinnar hafa setið vinnufundi með verkefnisaðilum Beint frá býli og vonast til að í framtíðinni geti hátíðin státað af stórum markaði með flestu því sem við Íslendingar getum státað af í
Þema:
Árið 2007 er þema hátíðarinnar “kornið” og er nú unnið markvisst í samvinnu við Landsamband kornbænda, Kornræktarfélagið Akur og Búgarð að uppbyggingu kynningarsvæðis sem verður einkennandi fyrir þemað. Nú þegar hefur verið sáð fyrir íslensk afbrigði korns á sýningarsvæðinu sjálfu ásamt því að unnið verður úr alíslensku hveiti, heilhveiti og byggi. Unnið verður með hálm á sérstökum þemabásum þar sem sýndar verða hálmfléttingar og fleira. Leitað er að einstaklingum sem vinna á einhvern hátt með korn, hálm, hör og þess háttar, til dæmis við vefnað, fléttingar og textíl. Allar ábendingar eru vel þegnar.
Þátttakendur:
Hönnuðum, handverks- og listiðnaðarfólki er boðin þátttaka í sýningunni og skulu sækja um á þar til gerðu umsóknarformi. Þetta má nálgast á heimasíðu www.handverkshatid.is og í síma 864-3633.
Námskeið:
Sem fyrr verða nokkur námskeið haldin í tengslum við hátíðina og bæði erlendir og innlendir listamenn fengnir til leiðbeiningar.
Fyrirhuguð námskeið :
- Þæfing - Leiðbeinandi er Valborg Mortensen
- Leðursaumur – Leiðbeinandi er Anna Gunnarsdóttir
- Hálmfléttingar – Leiðbeinandi er Doris Gustafsson
- Eldsmíði – Leiðbeinandi er Beate Stormo
Allar nánari upplýsingar um umsóknarfrest og skráningar er hægt að fá í síma 864-3633.
Dóróthea Jónsdóttir framkvæmdastjóri Uppskera og handverk 2007.
Birt:
Tilvitnun:
Dórothea Jónsdóttir „Uppskera og handverk 2007“, Náttúran.is: 25. maí 2007 URL: http://nature.is/d/2007/05/25/uppskera-og-handverk-2007/ [Skoðað:21. nóvember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.