Framkvæmdaráð Evrópusambandsins hefur nú skilgreint sex atvinnugreinar sem leiðandi í nýsköpun í Evrópu og er ein þeirra endurnýjanlegar orkuauðlindir. Til að hraða þróun þessara atvinnugreina hafa verið útbúnar aðgerðaáætlanir fyrir næstu 3-5 árin, og er að því stefnt að ekki færri en 3 milljónir manna munu starfa í þessum greinum árið 2003 og verðmæti greinanna sex verði ekki undir 300 milljörðum evra. Atvinnugreinarnar sem Evrópuráðið skilgreinir sem leiðandi í nýsköpun hafa raunar flestar eða allar verið áberandi í umræðunni hérlendis, þ.e: rafrænt heilbrigðiskerfi, hlífðarfatnaður, sjálfbær byggingartækni, endurvinnsla, lífrænar vörur og endurnýjanlegar orkuauðlindir.

Svo dæmi sé tekið má nefna að ársvelta starfsemi í tengslum við endurnýjanlegar orkulindir í Evrópu nemur 20 milljörðum evra og skapar 300 þúsund manns atvinnu, samtímis því að mæta um 8,5% af orkuþörf álfunnar, að því er fram kemur í lýsingu ráðsins á umræddum greinum. Fyrir tæpu ári setti ráðið það markmið að árið 2020 myndi fimmtungur af þeirri orku sem Evrópubúar nota eiga rætur að rekja til endurnýjanlegra orkulinda.

Hugmyndaauðgi og sterkar rætur

„Þessar greinar einkennast af mikilli hugmyndauðgi, mæta þörfum neytenda, eiga sterkar tækni- og iðnaðarrætur í Evrópu og treysta meira en aðrar greinar á að þeim verði skapaðar hagstæður starfsrammi fyrir tilstilli opinberrar stefnumótunar,” segir í lýsingu ráðsins á hvers vegna þessar greinar urðu fyrir valinu. „Evrópubúar munu hagnast á jákvæðum áhrifum hagvaxtar og fjölgun starfa og einnig á því að eiga völ á betri vörum og þjónustu sem hefur mikið gildi fyrir samfélagið.”

Birt:
20. febrúar 2008
Tilvitnun:
Viðar Þorsteinsson „ESB gerir aðgerðaáætlun fyrir hreina orku og lífrænar vörur“, Náttúran.is: 20. febrúar 2008 URL: http://nature.is/d/2008/02/20/esb-gerir-aogeroaaaetlun-fyrir-hreina-orku-og-lifr/ [Skoðað:22. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: